145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:26]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er eitt sem er gríðarlega gott við þingsalinn: Með því að sitja hér og hlusta á ræður þingmanna um ólíka málaflokka — Píratar hafa oft ekki tök á að sitja í nefndunum því að fundir ýmissa nefnda eru á sama tíma — þá verður maður öllu upplýstari um viðkomandi málaflokka. Ég hef heyrt með samtölum og með því að hlusta á minni hlutann að minni hlutinn hafi komið með mjög gagnlegar breytingartillögur við áætlunina, tillögur sem maður hefði haldið að ættu erindi inn í þessa tveggja ára áætlun, því að ljóst er að þessu kjörtímabili er að ljúka. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvað henni finnist, af samtölum við aðra þingmenn, með því að vera vel inni í þessum málaflokki, hvort hún skynji vilja hjá meiri hlutanum til að taka inn breytingartillögurnar. Ég veit, frá því sem ég hef heyrt og fylgst með, að minni hlutinn hefur unnið mjög náið með meiri hlutanum í þessari samgönguáætlun. Því væri góður bragur á því ef þingmenn meiri hlutans í nefndinni og á þingi ásamt ráðherraliði sínu mundu taka tillit til þess að nýtt umboð mun brátt líta ljós. Hver verður með það umboð er kannski ekki meginstefið heldur aðalstefið að við séum með samgönguáætlun sem gagnast öllum landsmönnum.