145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni Kristjáni L. Möller fyrir ræðu hans. Ég veit ekki hvort það verður hans síðasta, hann fær vonandi alla vega að koma hér aftur upp og svara mér í andsvari og getur þá haldið aðeins áfram að ræða um samgöngumál, sem ég veit að eru mál sem eru hv. þingmanni ansi hugleikin. Ég hlustaði af athygli á það sem hv. þingmaður sagði um jarðgöng, því að ég er sjálf svolítill áhugamaður um jarðgöng og finnst þau frábær samgöngubót, og ég er sammála því að við þurfum að hafa metnað þar og vera svolítið stórhuga.

Það er auðvitað mjög merkilegt og eitthvað sem við eigum að hafa í huga, sem ég tók einmitt eftir að kom fram í framsögu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar með áliti meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar, að komið hefur í ljós að jarðgöng styrkja stöðu kvenna í hinum dreifðari byggðum. Þetta er atriði sem ég held að við þingmenn eigum að taka mark á og hafa alltaf í huga.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að hann talaði um að það þyrfti að samþykkja breytingarnar sem lagðar hefðu verið til með málinu. Mér fannst það ekki alveg vera ljóst af máli hv. þingmannsins hvort það þurfi ekki að samþykkja tillögur bæði meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar, sem eru ansi viðamiklar og segja mikið um samgönguáætlun, og (Forseti hringir.) frá minni hluta hv. þingnefndar.