145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Nú þegar kosningar nálgast langar mig aðeins að ræða um ágalla í kosningakerfi okkar. Við erum með þröskuld, 5% þröskuld, sem þarf eitt og sér ekki endilega að vera slæmt. En öll atkvæði sem fara til flokka sem ekki ná þessum 5% þröskuldi falla í rauninni dauð. Í síðustu kosningum féllu 12% atkvæða niður dauð með þessum hætti. Eins og ég segi geta verið gild rök fyrir því að vera með þröskuld. Hins vegar hefur verið rætt um það, og mér finnst það vera lýðræðisleg leið, að gera kerfið þannig úr garði að kjósandi geti valið kost númer tvö. Kannski hefur einhver hug á að kjósa flokk sem mælist með 2,5% fylgi í skoðanakönnunum en ákveður að kjósa taktískt í staðinn fyrir að kjósa með hjartanu. Kjósandi gæti þá sett eitt X við þann flokk sem hann kýs í fyrsta sæti og er hans fyrsta val, en fengið síðan annað val þannig að ef sá flokkur sem hann kaus nær ekki 5% fylgi færðist atkvæðið á næsta flokk sem hann valdi. Það er aðferð sem Þorkell Helgason hefur viðrað og er þekkt og lýðræðisleg. Mér finnst við þurfa að skoða þetta því að það er ólýðræðislegt þegar vilji kjósenda kemst ekki til skila, eins og gerðist til dæmis í síðustu kosningum.

Skoðanakannanir eru skoðanamyndandi. Þess vegna eru þær sums staðar bannaðar í einhvern ákveðinn tíma fyrir kosningar. En ég vil hvetja fólk, því að við erum því miður ekki búin að breyta kerfinu, til að kjósa með hjartanu. Skoðanakannanir geta verið misvísandi. Við sjáum það t.d. með Pírata sem rétt komust inn á þing með (Forseti hringir.) 5% en náðu að verða miklu stærri flokkur í skoðanakönnunum.


Efnisorð er vísa í ræðuna