145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

frumvarp um raflínur að Bakka.

[10:38]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að gera athugasemd við fundarstjórn forseta hvað varðar 6. mál á dagskrá. Í dag er 10. október sem er sá dagur sem úrskurðarnefnd auðlindamála nefndi sem dag sem þau gætu verið tilbúin að skila áliti sínu hvað varðar kæru Landverndar á framkvæmdaleyfi þar sem nú liggur fyrir. Ég mótmæli því að hér eigi að fara að ræða mál þar sem lög eru tekin úr sambandi þegar eðlilegir ferlar eru enn til staðar og það er verið að vinna málið eðlilega. Við eigum ekki að hafa þetta mál á dagskrá. Það á að fá að fara sinn eðlilega veg.

Ég mótmæli því að ráðherra komi inn með þvílíku gerræði að taka fram fyrir hendurnar á eðlilegum ferlum. Hún gerir það í krafti álits sem lögfræðingar sem vinna fyrir Landsnet fjalla um og þar er verið að fjalla um hvort Landsnet hafi staðið rétt að málum. Hér er augljóslega um mikið fúsk í vinnubrögðum að ræða og við eigum ekki að stunda þannig vinnubrögð á þingi.