145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:29]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það eru einmitt sem betur fer til undantekningar. Það sem vann svolítið með okkur er að þetta sumarþing hefur heldur betur lengst, það átti upprunalega að vera búið fyrir 2. september, þannig að við fengum miklu meira rými til að vinna með þessi flóknu mál. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef við hefðum þurft að klára þetta fyrir 2. september til dæmis, tíminn vinnur að sjálfsögðu alltaf með í lagasetningu. Því meiri tími sem maður fær til að fara yfir málin og kalla til fleiri sjónarmið, þeim mun betri verður lokaafurðin. Þess vegna mundi ég vilja efla enn frekar þá sérfræðiþekkingu sem við höfum verið að búa til á þinginu og fá fleiri til þess að fara yfir lögin þegar þau koma hingað fyrst inn, oft eru ambögur af því að oft er þrýstingur á að klára málin hraðar o.s.frv.

Varðandi framtíðarsýnina er ég alveg sammála. Það þarf að fara mjög ítarlega yfir þennan málaflokk á heildrænan hátt. Eins og ég segi hef ég átt fundi í innanríkisráðuneytinu og ég veit að vinna er í gangi. Ég hef líka verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að skrifa ályktun fyrir Alþjóðaþingmannasambandið um hvað þarf til þess meðal annars að tryggja mannréttindi á hinum stafrænu tímum. Þar eru ýmsar tillögur sem munu vonandi gagnast í þeirri vinnu sem þarf að eiga sér stað. Ég mun svo sannarlega halda áfram að beita mér í þessum málaflokki og viða að mér nýjustu upplýsingum, því að mjög ör þróun er í því hvernig maður getur fundir lausnir við þeim ógnum sem steðja að, gagnvart því að hafa of mikil inngrip og það getur haft mjög kælandi áhrif á eðlilegt lýðræði ef við upplifum að eiga enga friðhelgi, hvergi skjól.