145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mjög ánægjulegt að við séum að klára þetta mál. Við eigum að hjálpa ungu fólki að eignast húsnæði. Það kerfi sem hefur verið fram til þessa hefur hvatt fólk til að skuldsetja sig. Það er alveg fáránlegt að hlusta á aðila hér segja að mismunun sé í gangi eftir því hvað menn fá mikinn ríkisstyrk. Þannig hefur það verið í vaxtabótakerfinu. (Gripið fram í: Nú?) Stjórnvöld hafa hvatt ungt fólk, og sérstaklega þeir flokkar sem tala gegn þessu, til að skuldsetja sig mikið. Við erum að snúa við. Við hvetjum fólk til að spara. (Gripið fram í: Er það?) Hjálpum því að eignast. Það er áhugavert að sjá ákveðna stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka berjast gegn því. Það verður munað. Hér afhjúpa (Gripið fram í.) sósíalistarnir á þingi sig algerlega. Þeir vilja ekki að ungt fólk í þessu landi fái að eignast sitt húsnæði. Þess vegna greiða þeir atkvæði gegn þessu. (Forseti hringir.) Við styðjum að sjálfsögðu þetta stórgóða mál.