145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:18]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nú eitt af því sem ég hef oft velt fyrir mér. Hvers vegna í ósköpunum er þetta svona flókið. Þegar fólk er búið að vinna alla sína ævi og borga í lífeyrissjóð og inn í almannatryggingakerfið, af hverju fær það það ekki óskert þegar komið er á elliárin? Fólk er búið að borga skatta af laununum sínum áður. Þetta er lagt inn og svo þarf það að borga aftur skatta þegar það fær þetta útborgað þegar elliárin færast yfir. Ég hef aldrei skilið hvers vegna. Það er náttúrlega krafa gráa hersins og Félags eldri borgara í Reykjavík, að fólk fái þetta óskert. Er þetta frekja? Eða er þetta réttlátt? Mér finnst að ef fólk er búið að vinna alla sína ævi þá eigi það að fá það sem það hefur unnið sér inn.

Ég sagði frá því áðan að maður einn var búinn að vinna í 51 ár hjá sama fyrirtækinu og borga í lífeyrissjóð alla sína ævi. Hann fékk á milli 150–200 þús. kr. á mánuði úr lífeyrissjóði. Eftir að hafa borgað í hann í 51 ár. Hvað er það? Síðan fékk hann uppbótina frá Tryggingastofnun sem upp á vantaði í lágmarkslaun. Maðurinn fór svo að vinna sem rútubílstjóri 69 ára og fékk 1.620 kr. á tímann. Ef þetta frumvarp hefði náð í gegn óbreytt hefði hann borgað 38% skatt af þessum 1.620 kr. plús 45% skerðingu á lífeyri. En hann fékk 277 kr. útborgað fyrir stundina. Það var kona, öryrki, sem sendi okkur bréf og sagði að hún væri að reyna að ná sér í 25 þúsund kall á mánuði með því að bera út blöð. Það hækkaði, að labba klukkutíma á mánuði á hverjum einasta degi, í 30 daga, launin hennar um 1.000 kr. Fyrir 30 tíma vinnu. Þetta er eitt af því sem er svo ofboðslega erfitt að skilja. Þessi mismunun, við erum náttúrlega að leggja fram tillögu um breytingu á þessu með mismununina á sambúðarfólki og ekki. Vonandi nær það í gegn. En eins og ég sagði áðan virðist allt sem er gert, hvert einasta prósent sem bætt er við, það eykur útgjöldin um fleiri milljarða. (Forseti hringir.) Þetta er alveg ótrúlega merkilegt kerfi.