145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:40]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Okkur greinir ekkert á um eitt, held ég. Það verður ekki tekið upp starfsgetumat og er tómt mál að tala um í mínum huga að taka það upp öðruvísi en að stokka upp kerfið allt þegar kemur að örorkubótum. Þar með erum við t.d. að fella sérstöku framfærsluuppbótina inn í örorkulífeyrinn, þá skerðist hann ekki lengur krónu á móti krónu, alveg sama og við höfum gert þegar kemur að eldri borgurum o.s.frv.

Þetta er auðvitað vandamál. Ef hækkunin hefði verið sett inn í aðra bótaflokka sem vissulega kom til greina, hefði það að vísu orðið töluvert miklu dýrara, það skal viðurkennt, það hefði líka skapað ákveðin vandamál þegar kemur að kerfisbreytingunum. Það liggur fyrir.

En aftur skiptir í mínum huga langmestu máli að nýtt þing taki þegar til við þessa vinnu og hún verði unnin í samráði og samvinnu við þá sem þurfa á aðstoð okkar að halda. Það skiptir öllu máli. Ég er sannfærður um að hægt er að ná þessu markmiði þegar á fyrri hluta komandi árs ef menn meina eitthvað með því að gera kerfisbreytingar, gera kerfið einfaldara, skiljanlegra og réttlátara án þess þó að fórna hagsmunum þeirra sem lakast standa. Ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um það meginatriði og ég er sannfærður um að það er hægt að finna góða farsæla lausn sem við getum öll verið stolt af.