145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:49]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil ósköp vel að jafnaðarmanninum hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni líði frekar illa þegar hann horfir fram á það að á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, hafa kjör öryrkja og eldri borgara batnað ár eftir ár eftir ár. [Frammíköll í þingsal.] Það er þannig hv. þingmaður … (Gripið fram í.) Hv. þingmaður. Ég verð taka þig á töflufund (Gripið fram í.) ef þú hlustar ekki. Það er líka þannig, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, að það er allt í lagi líka … (Gripið fram í.) Hv. þingmaður, það er allt í lagi af og til að hlusta á staðreyndir og það sem rétt er. Það sem er rétt er að bætur almannatryggingakerfisins munu 1. janúar vera 25% hærri en þegar ríkisstjórnin tók við sumarið 2013. Bætur almannatrygginga hækka um 25%. (Gripið fram í.) Þetta er staðreynd. Ég veit að þetta er erfitt og ég veit að ykkur líður illa að þurfa að horfa framan í það að hér eru að nást fram líklegast einhverjar mestu kjarabætur sem eldri borgarar hafa fengið í áraraðir. Um það geta menn bara ekki deilt.

En ég segi líka: Við vorum líka að reyna að tryggja þeim sem lökust hafa kjörin meðal öryrkja að lágmarki 300 þús. kr. frá og með 1. janúar 2018. En við eigum hins vegar eftir og ég ítreka það að vinna meiri heimavinnu þegar kemur að þeim bræðrum okkar og systrum sem geta kannski ekki unnið nema að takmörkuðu leyti og sumir lítið sem ekkert. Það er áskorun mín til þeirra sem setjast á þing eftir kosningar (Forseti hringir.) að vinna heils hugar að því og deila ekkert um það.