146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur andsvar hennar. Ég vil segja að það er að sjálfsögðu mikilvægt verkefni að lækka vaxtakostnað ríkisins. Það er ástæðan fyrir því að einhugur var í þessum sal þegar rætt var um stöðugleikaframlögin, að þau skyldi nýta til að lækka vaxtakostnað ríkisins og greiða niður skuldir. Það er ekki sjálfgefið. Það hefði ekki verið sjálfgefið á öllum tímum. En það sýnir mjög ábyrga afstöðu Alþingis, að ég tel, að hafa tekið þá afstöðu. Það er hins vegar líka mikilvægt að viðurkenna að einskiptispeninga er hægt að nýta í einskiptisaðgerðir, þ.e. fyrst og fremst til að lækka skuldir eða í einhverjar framkvæmdir. Þeir peningar verða ekki nýttir í reksturinn, svo maður segi það nú. Vaxtagjöld ríkisins skiptir máli að lækka því að lækkun eykur svigrúm fyrir rekstur. Ég er á því að ekki sé eðlilegt að ríkið eigi alla þá banka sem það á í dag. Ég tel að ríkið eigi að eiga Landsbankann en ekki endilega fleiri banka. Ég tel hins vegar að stjórnvöld og Alþingi eigi að nýta tækifærið sem við höfum núna þegar bankakerfið liggur í fanginu á okkur, og auðvitað getum við gert það þótt það liggi ekki í fanginu á okkur, en ég held að mikilvægt sé að við tökum umræðu um heildarstefnumótun um hvernig við viljum sjá bankakerfið. Ég tel að það eigi að nýta tækifærið og aðskilja viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi, sem er hluti þess sem mikið hefur verið rætt um í Evrópu en ekki síður í Bandaríkjunum vegna fjármálakreppunnar. Það eru ólíkar leiðir til að aðskilja þessa starfsemi. En ég held að þurfi að liggja fyrir áður en eitthvað verður selt út úr bönkunum eða bankarnir í heilu lagi hvernig sú stefnumótun á að vera. Ég tel mjög mikilvægt að hún liggi fyrir.

Síðan vil ég segja að það þarf auðvitað að fara varlega. Það þarf að vera eftirspurn eftir íslenskum bönkum (Forseti hringir.) og það þarf að fást almennilegt verð fyrir þessar eignir.