146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að mikilvægt er að leita samstöðu um stór mál. Ég held að það sé alveg rétt að síðasta þing hafi lagt sig fram um það, oft og tíðum a.m.k. En við megum svo ekki gleyma því að þegar rætt er um ábyrgan rekstur ríkissjóðs verður það að fara saman við ábyrgan rekstur á samfélagi. Við erum ekki hér út af ríkissjóði, svo það liggi fyrir. Hann er til út af okkur, ekki okkur þingmönnum heldur okkur Íslendingum. Hann á að vera okkar tæki til að gera þetta samfélag betra. Á köflum finnst mér þegar við ræðum opinber fjármál — og þar höfum við sett okkur ákveðnar reglur sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðumst gegn af því að við teljum þær reglur lúta ákveðnum hagstjórnarprinsippum sem eru ekki í takt við þá pólitísku sýn sem við aðhyllumst, sem snýst um jöfnuð og félagslegt réttlæti — eins og ríkissjóður sé orðinn yfirskipaður fólkinu í landinu. Þannig á það ekki að vera. Ríkissjóður er til fyrir fólkið í landinu. Við hljótum að velta því fyrir okkur þegar reglusetningin er orðin með þeim hætti að við erum ekki sátt við þá þjónustu sem samfélagið veitir borgurum sínum hvort það sé ekki eitthvað rangt við reglusetninguna. Það var aðalpunktur ræðu minnar áðan. Þetta snýst nefnilega um grundvallarpólitík, hvernig við innheimtum peningana og hvernig við útdeilum þeim og hvort við lítum á fjármálakerfið og ríkissjóð sem leiðtoga lífs okkar eða hvort við lítum á það sem þjón fólksins í landinu.