146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[13:54]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Takk fyrir þessa fínu spurningu. Ég á ekki til neitt eitt svar. Meginstefið í því sem ég sagði áðan var að það er mikill möguleiki fyrir hendi til að gera meira með minna eins og Richard Buckminster Fuller talaði um á sínum tíma, að það sé hægt að læra að nýta fjármunina betur, byggja betra regluverk og skapa skilvirkni innan stofnana sem þekkist ekki í nógu miklum mæli í dag. Það er í rauninni voðalega lítið annað fyrr en við komum síðan að spurningunni um tekjuöflun. Mig grunar að hv. þingmaður sé að vísa til þess. Þar þurfum við kannski að breyta aðeins hvernig við hugsum um hlutina. Við erum með eitt hæsta skattstig í heimi þegar kemur að tekjum einstaklinga. Við erum sömuleiðis með eitt lægsta skattstig í OECD-löndunum þegar kemur að fyrirtækjum. Við vitum að hátt skattstig á fyrirtæki er heldur ekkert jákvætt. Við verðum að finna eitthvert jafnvægi í hagkerfinu og það ræðst ekki af skattpíningu.

En við þurfum að leysa öll þessi vandamál. Hvernig við gerum það er nokkuð sem við tökum fyrir á næstu dögum, vikum, mánuðum og árum og ég þakka bara fyrir að fá að taka þátt í því með ykkur.