146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Dýrmætt tækifæri fór því miður í súginn í gær til að láta reyna á ný vinnubrögð og nýja sýn í íslenskum stjórnmálum þar sem sjónarmið fleiri en tveggja eða þriggja flokka yrðu lögð fram við ákvarðanatöku og samningsgerð ríkisstjórnar landsins. Við upplifum því nú sérstakt ástand í íslenskum stjórnmálum. Starfsstjórn hægri flokkanna er við völd og hvorki stjórnarmeirihluti né minni hluti á þinginu. Í þessu pólitíska andrúmi glímir Alþingi við fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar og ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Í frumvarpinu má finna afar mörg vonbrigði eins og kom fram í 1. umr. um fjárlagafrumvarpið í þingsal og líka í viðbrögðum forstöðufólks ríkisstofnana og samfélagsins alls. Þrátt fyrir batnandi stöðu ríkissjóðs búa stærstu og mikilvægustu málaflokkar íslensks samfélags, heilbrigðismálin, velferðarmálin og menntamálin og önnur uppbygging innviða á borð við samgöngur og löggæslu, áfram við afar þröngar fjárveitingar. Það er á sama tíma og mikil þenslumerki eru á lofti og áframhaldandi styrking krónunnar er varhugaverð þegar kemur að útflutningsgreinum og ferðaþjónustunni sem hefur verið bjargvættur okkar frá hruni.

En einn af mikilvægustu málaflokkunum sem ekki er sinnt að neinu ásættanlegu marki í fjárlagafrumvarpi starfsstjórnarinnar er loftslagsmálin og eftirfylgnin við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna sem undirritaður var í París í desember fyrir ári síðan og undirritaður af hálfu ríkisstjórnar Íslands. Heildarfjármögnun verkefna sem heyra undir sóknaráætlun í loftslagsmálum nam á yfirstandandi ári 250 millj. kr. Hluti af þeim fjármunum á að tryggja fjármögnun til þriggja ára til þessa málaflokks. Í stöðuskýrslu um framgang verkefna í sóknaráætluninni sem lögð var fram í október 2016 og sýnd hefur verið fjárlaganefnd kemur til að mynda fram að fjárframlög til verkefnisins um eflingu rafbílavæðingar á landsvísu eru heilar 67 millj. kr. (Forseti hringir.) á þremur árum. Þetta er eitt dæmi um hversu vanfjármögnuð loftslagsmálin eru í fjárlagafrumvarpinu. (Forseti hringir.) Loftslagsmálin eru þau mál sem okkur ber skylda til að taka okkur betur á í og ég óska þess og vona að komandi ríkisstjórn muni taka betur á þessum málum en sú starfsstjórn sem hér situr.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna