146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:38]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Líkt og hefur komið fram í þessum umræðum í dag var þetta mál flutt á síðasta þingi og var talsverð umræða um það þá. Mig langar af því tilefni að taka undir það með hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að vegna þess hversu stórt þetta mál er, því að það er gríðarlega mikilvægt og stórt og varðar mjög mikla fjárhagslega hagsmuni, annars vegar lífeyrisþega, þ.e. lífeyristakendur framtíðarinnar, þetta er ævisparnaðurinn og framfærsla fólks sem við erum að tala um, og hins vegar meira en 100 milljarða útgjöld úr ríkissjóði, er miður að ekki skuli hafa verið nægur tími á síðasta þingi til að ræða það og ekki fundinn farvegur fyrir málið til þess að setja það í nefnd á milli þinga svo að hægt væri að halda áfram að vinna það.

Vissulega hefur málið tekið breytingum frá því að það var lagt fram á síðasta þingi. Ég held að þær séu til hins betra en ég veit ekki hvort þær eru nægjanlega miklar. Það er auðvitað alvarlegt, líkt og síðasti ræðumaður, hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, nefndi í ræðu sinni, þegar skrifað hefur verið undir samkomulag að ólíkir aðilar séu ósammála um það í hverju það felst. Þá vil ég aftur vísa í það að við erum að tala um rosalega stórt og mikilvægt mál. Það er af svo stórri stærðargráðu að það verða allir að vera á sömu blaðsíðunni þegar ákvarðanir eru teknar. Það er nokkuð ljóst að hv. efnahags- og viðskiptanefndar bíður mikil vinna núna á næstu dögum við það að fá gesti, hagsmunaaðila, forsvarsmenn þeirra stéttarfélaga sem þetta frumvarp varðar, á sinn fund, kalla fram sýn þeirra og viðhorf til þessa máls og svo mögulega í framhaldinu að leggja til nauðsynlegar breytingar til þess að allir geti sáttir við unað.

Mig langar í ræðu minni að gera tvennt að umræðuefni sem mér finnst skipta máli. Það er ekki það eina mikilvæga í þessu máli, ég átta mig á því að ég mun ekki geta komist yfir að fara yfir allt sem skiptir máli, en það eru tvö atriði sem mig langar að halda til haga og tengjast raunar atriðum sem mér fannst einnig mikilvægt að vekja máls á á síðasta þingi.

Fyrra atriðið er hækkun á lífeyrisaldri úr 65 árum í 67 ár. Ég spurði hæstv. ráðherra út í það í andsvörum þegar hann mælti fyrir málinu á síðasta þingi, vegna þess að þá ræddum við einnig í þinginu annað mál sem sneri að hækkun lífeyristökualdurs nema þá vorum við að tala um það í samhengi við almannatryggingakerfið, en þá stóð til að hækka þar lífeyristökualdurinn úr 67 árum upp í 70 ár. Mér fannst mikilvægt að spyrja hæstv. ráðherra hvort lífeyrismálin hefðu verið skoðuð í samhengi. Svo virtist því miður ekki vera. Það fannst mér bagalegt því að almannatryggingar eru vissulega á sviði hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra meðan lífeyrismál opinberra starfsmanna eru á sviði hæstv. fjármálaráðherra. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé yfirsýn yfir málið og hlutirnir ræddir í samhengi, enda kom fram milli 2. og 3. umr. um almannatryggingafrumvarpið í nefndaráliti meiri hluta hv. velferðarnefndar að mikilvægt væri að samræma lífeyrisréttindi innan lífeyrissjóðakerfisins áður en lífeyristökualdri innan almannatryggingakerfisins væri breytt og þeim var því frestað.

Þetta finnst mér mikilvægt að hafi verið gert vegna þess að það skiptir máli að þessi mál séu í samræmi. Hækkun á lífeyristökualdri hefur áhrif sama í hvaða kerfi það er, hvort sem það er innan almannatryggingakerfisins, á almennum vinnumarkaði eða hjá hinu opinbera. Það er einboðið að þetta mun leiða til fjölgunar öryrkja þar sem nýgengi örorku er hátt, ekki hvað síst í fjölmennum kvennastéttum. Það er vissulega partur af hinum opinberu starfsmönnum. Auðvitað kemur þetta við fleiri en kvennastéttir. Líkt og hefur verið bent á í umræðunni kemur hækkun á lífeyristökualdri sérstaklega við alla sem vinna í líkamlega erfiðum störfum. Það eru auðvitað stéttir þar innan, líkt og hefur verið minnst á, svo sem sjúkraflutningamenn og slökkviliðsmenn, sem hingað til hafa ekki verið hefðbundnar kvennastéttir, en þarna undir eru líka aðrar stéttir eins og sjúkraliðar og kennarar sem kannski vinna ekki beinlínis líkamlega erfitt starf en andlega mjög krefjandi starf. Mér finnst að við þurfum að vera meðvituð um það hvað hækkun á lífeyristökualdri þýðir í hinni samfélagslegu mynd. Þar með er ég ekki að segja að ég leggist gegn því að lífeyristökualdur verði hækkaður, en mér finnst mikilvægt að við séum meðvituð um áhrifin sem það hefur á samfélagið og útgjöld annars staðar í kerfinu. Við þurfum einnig að vera meðvituð um að það þurfi að hafa sveigjanleika í kerfinu þar sem jafnvel er tekið sérstaklega tillit til þeirra stétta sem vinna líkamlega erfið störf.

Hækkun á lífeyrisaldri krefst líka viðhorfsbreytinga í garð eldra fólks á vinnumarkaði. Ég held að við þekkjum öll og höfum orðið vör við í umræðunni um þetta að eldra fólk á oft erfitt með að fá vinnu og á jafnvel á hættu að missa vinnuna þegar samdráttur er á vinnumarkaði. Það er erfitt og líklega ómögulegt að skrifa viðhorfsbreytingar inn í lagatexta, ég átta mig alveg á því, en hér er ábyrgð vinnuveitenda mjög mikil. Í þessu tilfelli, í tilefni af því þingmáli sem við ræðum í dag, er ábyrgð hins opinbera mikil. Við verðum að gera kröfu á að hið opinbera gangi á undan með góðu fordæmi og segi fólki ekki upp sem er að komast á lífeyristökualdur og hafi það sem part af starfsmannastefnu sinni að ráða eldra fólk í vinnu. Þetta skiptir máli inn í þessa umræðu.

Þetta var annað atriðið sem ég vildi ræða, breytingin á lífeyristökualdrinum. Hitt er jöfnun launakjara almenns og opinbers vinnumarkaðar. Mér fannst hæstv. fjármálaráðherra tala ágætlega um það í framsögu sinni að hér væru ólík sjónarmið, sumir vildu jafnvel fara í hina áttina, jafna launin fyrst og lífeyrisréttindin seinna. Mér fannst gott að hæstv. ráðherra skyldi nefna það vegna þess að ég verð að taka undir áhyggjur þeirra sem hafa talað um að ekki sé nógu vel um málið búið, þ.e. hvernig eigi að jafna launin, við hvað eigi að miða. Ég verð að segja það að textinn í greinargerðinni með frumvarpinu er ansi opinn fyrir túlkunum. Þar segir, með leyfi forseta, á bls. 16:

„Þá verður að gera ráð fyrir því að launajöfnun í þessu tilliti verði innan þess svigrúms sem kjarasamningar og ríkisfjármálaáætlanir setja og að ýmsir aðrir þættir muni geta vegið þar til mótvægis, svo sem aukin framleiðni í opinberri starfsemi, endurskipulagning og hagræðing þjónustuveitingar, tækniþróun, ráðstafanir til að draga úr öðrum útgjöldum o.fl.“

Það er á þessum vettvangi sem er hreinlega hægt að hafa áhrif á það hvernig verður staðið að launajöfnun, til að mynda hvernig ríkisfjármálaáætlanirnar eru úr garði gerðar. Mér finnst ekkert skrýtið að það séu hópar fólks úti í samfélaginu sem hafa áhyggjur af þessu og þarna sé í raun ekkert í hendi en vissulega verið að gefa einhvers konar von og ádrátt um það að kjörin verði bætt. Textinn er þannig að þetta er rosalega óljóst og í raun hægt að gera ýmislegt til þess að minnka svigrúm til launabreytinga ef menn vilja gera það.

Þetta er eitt af því sem mér finnst að hv. efnahags- og viðskiptanefnd eigi að taka til sérstakrar skoðunar og spyrja gesti sína út í og reyna í samræmi við þá að búa betur (Forseti hringir.) um vegna þess að ég held að vilji sé til að greiða fyrir þessu þingmáli og vegna þess að það skiptir svo miklu máli fjárhagslega að (Forseti hringir.) að vel verði um hnútana búið.