146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:54]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Frumvarpið sem hér er til umræðu er ill nauðsyn. Það er nokkuð skýrt, það hefur komið fram í máli margra annarra hv. þingmanna sem og í máli hæstv. fjármálaráðherra þannig að ég ætla ekki að eyða tíma okkar í að endurtaka þau rök, enda er ég þeim mikið til sammála.

Tvennu þurfum við þó að átta okkur á í þessu samhengi sem mér finnst þess virði að við ræðum aðeins. Annars vegar mun þessi aðgerð kosta ríkissjóð töluverða fjármuni. Um 100 milljarðar kr. fara í það að styrkja sjóði LSR, en sú upphæð er lögð til að rétta af mikinn uppsafnaðan halla og skapa svigrúm til að halda áfram rekstri með eðlilegum hætti. Þessir fjármunir verða að skoðast í samhengi við allt lífeyrissjóðakerfið sem einhverjir hafa áætlað að hljóði upp á um 3.500 milljarða kr. Þetta er því innspýting í gríðarlega stórt lífeyrissjóðakerfi upp á um 4% heildarumfangs þess ef þetta mat er rétt. Í ofanálag falla um 4 milljarðar á ríkissjóð árlega vegna hækkaðra iðgjalda sem fjármagna þarf við yfirferð fjárlaganna. Hvort sem litið er til þeirra fyrirtækja sem eru á hlutabréfamarkaði, ríkisskulda eða annarra stórra fjármuna innan íslenska hagkerfisins sést að lífeyrissjóðirnir eru orðnir ansi fyrirferðarmiklir. Það kann að vera að hinn mikli þungi lífeyrissjóðanna hafi ýmis ófyrirséð áhrif á hagkerfið, jafnvel skaðleg. Það getur verið að það hækki verð í almennri neyslu, á húsnæði og öðru, minnki svigrúm annarra til fjárfestinga og keyri upp vaxtastig og þar fram eftir götunum.

Margt af þessu hefur verið kannað, en ekki til hlítar svo ég viti. Hitt atriðið er að lífaldur fólks hækkar stöðugt, eins og hv. þm. Eva Pandora Baldursdóttir rakti áðan. Mér fannst í raun og veru ágætt sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir rakti um atvinnutækifæri aldraðra rétt áðan, að þau þurfi að aukast og batna í ljósi hækkandi aldurs, enda hefur breski öldrunarsérfræðingurinn Aubrey de Grey haldið því fram að fyrsta mannveran sem muni ná þúsund ára aldri sé þegar fædd. Ég veit ekki hvort ég trúi því, það er svolítið langt gengið hjá honum, en í það minnsta er ljóst að það fer að verða meiri regla en undantekning að fólk nái því að verða aldargamalt. Læknisfræðilegar framfarir munu auka starfsgetu fólks fram eftir aldri, sem skiptir mjög miklu máli og við þurfum að fara að taka tillit til þess alls.

Meðan lífaldurinn eykst en starfsgeta fólks er ekki í samræmi við það mun alltaf koma meira og meira álag á lífeyrissjóðakerfið. Það er augljóst að þau vandamál sem steðja að lífeyrissjóðakerfinu, bæði LSR og öðrum lífeyrissjóðum, munu ekki leysast, hvorki með minni háttar né meiri háttar leiðréttingum. Ég tel að það sé meiri háttar leiðrétting sem við ræðum hér í dag, en málið mun ekki leysast með henni. Við þurfum að gera heildarendurskoðun á lífeyrissjóðafyrirkomulaginu. Ég tel að við verðum að leysa vandamálið með hraði og binda fyrir það helst fyrir áramót. Þangað til legg ég til að farið verði sem fyrst í þá vinnu að endurskoða allt lífeyrissjóðakerfið, að kannaðir verði möguleikar á gegnumstreymiskerfi og allar aðrar hliðar á því máli verði vel skoðaðar vegna þess að það liggur mikið við. Þetta er flókið kerfi sem hefur ótrúlega víðtæk áhrif á hagkerfi Íslands. Ef við lögum ekki það ekki og gerum það vel getur það orðið þungur baggi á eldra fólki í samfélaginu. Í rauninni er engin ástæða til að laga það ekki.