146. löggjafarþing — 9. fundur,  21. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:20]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er mikilvægt eins og hér hefur komið fram að standa við samkomulagið sem frumvarpið byggir á. Greinin sem hér um ræðir tók breytingum frá því að hún var lögð fram síðastliðið haust. Þar var kveðið á um greiðslur úr varúðarsjóði ef 10% rýrnun yrði á tryggingafræðilegri stöðu varúðarsjóðsins á einu ári. Það var í samkomulagi sem var gert í haust og kemur fram í viðaukanum við það samkomulag.

Í þessari tillögu er lagt til að tímabilið sem miðað er við verði fimm ár án þess að þeir aðilar sem samið var við hafi fengið fullnægjandi skýringar á því. Þessi vinnubrögð rýra traust á milli aðila.