146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[12:10]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hef verið mikill talsmaður þess að við aukum rafræna stjórnsýslu, og já, ég tel að það sé svigrúm til þess í fjárlögum að bregðast við slíku. Hvort við erum nákvæmlega sammála og hvort allir eru sammála um hvað eru réttar leiðir í þeim efnum þori ég ekki að segja til um. En við sjáum svo mörg tækifæri í hagræðingu og ekki síst betri þjónustu, fyrir utan gegnsæið og mikilvægi þess að stjórnsýsla okkar sé öll gegnsæ og opin.

Ég fagna sameiginlegum áhuga okkar á þessu málefni og efast ekki um að hann leynist víða á þingi og vonandi líka í ráðuneytunum. Það er nákvæmlega þess vegna sem ég var að tala um mikilvægi þess að það væru miðlægar einingar í Stjórnarráðinu sem héldu utan um þessi mál, við værum ekki að finna upp hjólið í hverju ráðuneyti fyrir sig, frekar en í hverri sveitarstjórn fyrir sig, eins og ég hef fjallað um á þeim vettvangi, heldur myndum við byggja upp miðlæga þekkingu og kunnáttu sem mun síðan nýtast í öllum ráðuneytum og víða í opinbera geiranum.