146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

sjómannaverkfallið.

[14:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Hæstv. forseti. Ég tel það mjög alvarlegt ef þingmenn vilja í miðri kjaradeilu að stjórnmálamenn sendi mjög skýr skilaboð út í kjaradeilurnar. Það tel ég mjög varhugavert. Ég undirstrika það sem ég sagði áðan, við erum að sjálfsögðu byrjuð á því að undirbúa mat á aðgerðum sem hugsanlega þarf að fara í og kanna hvaða áhrif verkfallið mun hafa til skemmri og lengri tíma á hinar dreifðu byggðir landsins. En ég tel varhugavert ef þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, ætli til að mynda að koma með lagafrumvörp sem beint er inn í kjaradeiluna, ef menn ætla t.d. að setja fram ákveðin viðmið um olíuverð, sem er heit kartafla í þessum viðræðum. Ég vara við því að stjórnmálamenn blandi sér í þessa deilu með beinum eða óbeinum hætti.

Við erum tilbúin í sjó og land og eins og hv. þingmaður veit hefur ráðuneytinu í gegnum tíðina verið sæmilega stjórnað og þannig er því stjórnað áfram. Við erum tilbúin til þess að verja og styrkja hinar dreifðu byggðir landsins nú sem endranær.