146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

þingnefnd um alþjóðlega fríverslunarsamninga.

79. mál
[16:21]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður skildi svar mitt alveg rétt. Ef hann kynnti sér atkvæðagreiðslur sem hér hafa verið um ýmsa fríverslunarsamninga sem við erum aðilar að í gegnum til að mynda EFTA eða bara í okkar eigin umboði, þá hafa þingmenn Vinstri grænna oft stutt slíka samninga. Það snýst því ekki um sjálf grundvallaratriðin heldur hvernig þessir samningar eru upp byggðir. Það sem vakið hefur athygli í þessum tilteknu samningum sem hér eru til umræðu er í fyrsta lagi leyndin sem hvílt hefur yfir samningaviðræðunum. Í öðru lagi er það sem hefur komið fram af þeim gögnum sem lekið hafa út. Í þriðja lagi vinnulagið í kringum þetta allt saman; málum hefur verið haldið mjög þétt að þeim sem sitja við samningaborðið. Erfitt hefur verið að fá fram upplýsingar, margt hefur verið sett fram, eins og ég nefndi áðan. Utanríkisráðuneytið kom til móts við gagnrýni með því að setja ákveðnar upplýsingar um TiSA-viðræðurnar á heimasíðu sína, sem er gott.

En það skiptir máli að þingmenn fái tækifæri til að setja sig inn í þessi mál á dýptina og átta sig á því hvað það þýðir t.d. ef gerðardómur verður hluti af TTIP-samningnum, segjum það, í ágreiningsmálum fjárfesta og þjóðríkja. Hvað þýðir það ef Ísland verður aðili að þeim samningi? Hvað þýðir það ef við horfum upp á, segjum fjárfestingar hér á landi í orkufyrirtækjum eða einhverju slíku sem stjórnvöld kunna svo að vilja breyta, t.d. í ljósi einhverra umhverfismarkmiða eða annars slíks? Þetta er auðvitað stórpólitískt mál sem ég held að sé mikilvægt að týnist ekki hér á vettvangi þingsins þar sem þingnefndir eru yfirleitt störfum hlaðnar og hafa lítil tækifæri til að taka mál upp að eigin frumkvæði og kafa ofan í þau. Einmitt þess vegna legg ég til þessa sérnefnd því að ég tel að þetta sé mál sem verðskuldi slíka athygli.