146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[18:03]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir framlagningu þessa frumvarps af hálfu 1. flutningsmanns, hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar og annarra sem flytja það ásamt honum.

Eins og hér hefur verið rætt og rakið er þetta frumvarp lagt fram í kjölfarið á mörgum öðrum frumvörpum sem hafa verið lögð fram í gegnum tíðina einmitt til þess að efla upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart Alþingi betur og fagna ég því að frumvarpið komi nú fram með þessum hætti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð í minni ræðu um nákvæmlega innihald þess og tilefni þess að það komi fram. Ég held að við öll sem höfum tekið til máls og hlýtt á þær umræður sem hér hafa farið fram í þingsalnum hljótum að vera sammála um nauðsyn þess að ráðherrar veiti þingmönnum upplýsingar í meira mæli en hefur verið gert og að upplýsingaskylda framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarvaldinu sé betur skilgreind en hefur verið hingað til.

Tilefnin eru næg og fjölmörg í gegnum tíðina. Eins og hv. þm. Oddný Harðardóttir rakti áðan í sinni ræðu voru í kjölfar efnahagshrunsins og þingmannanefndarinnar ærin tilefni til þess að ætla að það væri ríkari skylda ráðherra til að koma fram með upplýsingagjöf til þingsins.

Ég ætla ekki að hafa mitt mál mjög langt, ég held að ég sé sammála flestöllu því sem hér hefur komið fram, en mig langar að velta því upp að t.d. að samkvæmt þingskapalögum hafa ráðherrar 15 daga til veita þingmönnum svar við skriflegum fyrirspurnum þeirra til ráðherra, en það eru í raun engin viðurlög eða eftirlit með því að ráðherrar svari þingmönnunum.

Ég velti því líka fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi einhverja hugmynd um það, því að hér segir í greinargerð með frumvarpinu að mikilvægt sé að refsiákvæði laganna sé skýrt, hvernig eftirliti með þessu yrði háttað, hvort það yrði á borði stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eða umboðsmanns Alþingis eða með öðrum hætti, til að tryggja enn betur aðhald með ráðherranum. Ég myndi gjarnan vilja að hv. þingmaður upplýsti mig nánar um það ef hann hefur tök á að koma í andsvar við þingmanninn sem hér stendur.

Ég fagna því að þetta frumvarp skuli komið fram og ég fagna því líka að heyra svo jákvæðan tón í þingmönnum varðandi innihald þess. Ég tel að það sé þinginu til hagsbóta að efla upplýsingaskyldu ráðherra sem svo sannarlega er í takti við ráðherraábyrgðina og í takti við það ákall í samfélaginu um að ráðherragjörðir fari fram fyrir opnum tjöldum og að efla þar að lútandi hlutverk þingsins sem eftirlitsaðila gagnvart ráðherrum. Ég fagna þessu frumvarpi og mun styðja það.