146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[18:46]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og hv. þingmönnum Framsóknarflokksins fyrir framlagningu þessarar tillögu. Ég fagna henni mjög. Ég veit að þetta hefur verið til umræðu lengi og vil þá minna á að þegar við förum í þessa vinnu að við nýtum okkur líka lýðheilsustefnuna sem samþykkt var. Ég held ég sé að fara rétt með.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í orð hennar er lutu að Landspítalanum og stjórnendum þar, að þeir hafi fengið of mikla athygli. Ég held nefnilega að ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni. Ég veit að hv. þingmaður er reyndari og ég velti fyrir mér hvaða umræðu þetta hafi fengið hér í þingsölum og hvort áherslan hafi á síðasta kjörtímabili verið í raun of mikil á Landspítalann sem vissulega er mikilvæg heilbrigðisstofnun og gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í heilbrigðiskerfi okkar. En ég tek undir það að þær eru fleiri og víðar um landið allt. Ég þekki ágætlega til heilbrigðisstofnunar sem rekin er í Mosfellsbæ, Reykjalundar. Allar úttektir hafa sýnt að það að kosta fólk í endurhæfingu hjá stofnun eins og Reykjalundi skilar sér margfalt í þjóðarbúið því að þessir einstaklingar skila sér aftur út í atvinnulífið, þar af leiðandi er hægt að reikna sig til hagnaðar í því sambandi.

Mig langar að heyra frá hv. þingmanni um það hvernig umræðan hefur verið hér á síðustu misserum um heilbrigðiskerfið okkar og þá sérstaklega Landspítalann.