146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[19:08]
Horfa

Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Allt í góðu með það að vera kallaður 7. þm., en ég er 6. þm. Norðvest.

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að þakka fyrir umræðuna og taka undir orð þeirra hv. þingmanna sem hér hafa talað. Í fyrsta lagi langar mig að taka undir orð hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar sem kom fyrstur upp í ræðustól á eftir mér um mikilvægi þess að horfa til samgangna eins og fram kemur í markmiðum þessarar tillögu. Við erum með sameinaðar heilbrigðisstofnanir víða um landið og ef við horfum t.d. til Vestfjarða þá eru gríðarlega erfiðar samgöngur á milli sunnanverðra og norðanverðra fjarðanna. Það er mjög mikilvægt að horfa til landfræðilegra þátta og ýmissa annarra eins og fram kemur í markmiðunum. Ég er jafnframt sammála honum að sóknarfæri séu í því að greina stöðuna og í einhverjum tilvikum væri hægt að færa þjónustuna nær fólki. Við erum ekki að tala um að við hverfum til baka tugi ára aftur í tímann, það verði skurðstofur alls staðar og allt gert alls staðar, heldur um sóknarfæri til að heilbrigðisstofnanir sérhæfi sig í ákveðnum verkefnum og verði sterkari á því sviði. Vonandi mun málið komast í það ferli að það fari til ráðuneytis og unnin verði heildstæð áætlun.

Í þessu samhengi langar mig líka að minnast á að við höfum sóknarfæri og við höfum séð þau á undanförnum árum til að nýta Kragasjúkrahúsin og við höfum t.d. notað Heilbrigðisstofnun Vesturlands í að stytta biðlista eftir liðskiptaaðgerðum. Þetta þarf að horfa á m.a. við gerð þessarar áætlunar.

Einnig langar mig að taka undir orð hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttir um mikilvægi þess að horfa á heildarmyndina í heilbrigðismálum og kem aftur að því að nýta Kragasjúkrahúsin til að taka m.a. á fráflæðisvanda Landspítala og tek jafnframt undir orð hennar um mikilvægi þess að hlusta á fagfólkið í greininni. Við stjórnmálamennirnir erum ekki sérfræðingarnir í þessum málum, því er mikilvægt að hlusta á þá sem hafa menntað sig í þessum þáttum og starfað og þekkja til aðstæðna. Í því samhengi vil ég nefna að hlustað sé á fagfólk af öllu landinu, því eins og fram kom í máli mínu áðan og í máli hv. þingmanna sem hér hafa talað er mjög mismunandi hvernig aðstæður eru t.d. á Landspítala og hjá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og hvað er verið að gera.

Ég verð líka að taka undir orð hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur sem ræddi hér áðan í andsvörum við hv. þm. Silju Dögg um að horfa á lýðheilsu. Því er ég hjartanlega sammála, það er mjög mikilvægt að horfa til lýðheilsu og forvarna við gerð áætlunarinnar. Þessir þættir hafa áhrif á heilbrigðiskerfið. Við getum unnið með forvarnir og lýðheilsu því að það er samhengi á milli þess og kostnaðar í heilbrigðiskerfinu.

Mig langar líka að segja, sem ég ætlaði nú að segja í flutningsræðu minni, að það er mjög mikilvægt að við séum ekki að finna upp hjólið heldur ræðum um það sem upp á vantar, við verðum að horfa til þeirra gagna sem til eru og vinna með þau jafnframt og samhliða þessu.

Jafnframt tek ég undir orð hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson um mikilvægi þess að hv. þingheimur verði samtaka og samhljóma í því að taka á þessu máli og ég tek undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar — maður má ekki skilja neinn eftir — þar sem hann segir einmitt að það séu til ýmis gögn, það er til löggjöf um heilbrigðismál og hvers þurfi að horfa til varðandi stefnumótun og um mikilvægi þess að skilgreina þá grunnþjónustu og nærþjónustu sem við viljum veita og ætlum okkur að veita á heilbrigðisstofnunum víða um landið. Eins og fram kom í máli hans þá eru orðnar mjög stórar sameinaðar heilbrigðisstofnanir mjög víða og starfssvæði þeirra þekur heilu landsfjórðungana og langt um veg að fara á milli ýmissa starfsstöðva.

Ég verð að fagna því sérstaklega, þó ég fagni því að hafa alla hv. þingmenn í velferðarnefnd, að fá þau sjónarmið sem komu fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan um fjarlægðarskilgreiningar og annað slíkt og fagna því að hafa mann með þessa miklu þingreynslu í hv. velferðarnefnd og hans sjónarmið við gerð þessarar áætlunar. Ég vil auðvitað fagna vinnu og framlagi allra annarra hv. þingmanna sem vilja koma að málinu með sín sjónarmið.

Að lokum vil ég taka undir orð hv. þm. Halldóru Mogensen um mikilvægi þess að vera með skýra stefnu um hvert við viljum og ætlum að stefna.

Að lokum vil ég þakka fyrir umræðuna og hversu vel hv. allir þingmenn hafa tekið í þetta þingmál. Mér þykir afar vænt um það og þakka kærlega fyrir.