146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að lýsa áhyggjum mínum af því hvert við stefnum, ekki bara íslenskt samfélag heldur kannski heimurinn almennt. Nýlegar fregnir utan úr heimi kveikja þessa þanka en inn í þá blandast einnig orðræða sem við höfum leyft okkur að normalísera, svo ég leyfi mér að sletta, gagnvart fólki sem af ýmsum ástæðum leitar hingað til lands af alls konar uppruna.

Höfum við sofnað á verðinum? Þegar formaður velferðarnefndar Alþingis [efnahags- og viðskiptanefndar, sjá leiðréttingu þingmanns kl. 15:35] talar um að mæta hluta hælisleitenda með stálhnefa, höfum við þá sofnað á verðinum? Þegar dómsmálaráðherra segir ríkisstjórnina ekki líða að velvild Íslendinga verði misnotuð með tilhæfulausum hælisumsóknum, höfum við þá sofnað á verðinum? Þegar það er orðið hluti af daglegu lífi okkar að lesa ummæli á netinu þar sem fólk sem hefur ekkert sér til sakar unnið annað en það að vera af ákveðnu þjóðerni eða aðhyllast ákveðin trúarbrögð er nítt og hætt og jafnvel hvatt til ofbeldis gegn því, höfum við þá sofnað á verðinum?

Er það ekki skylda okkar að standa vörð um mannvirðingu? Ég veit ekki hvort orð mín hér skipta nokkru en ég vil þó reyna. Þetta er eitt af stóru vandamálunum sem vestræn samfélög standa frammi fyrir og við eigum að taka þetta alvarlega áður en það verður of seint. Mig langar að beina orðum mínum til hæstv. velferðarráðherra um hvort það væri ráð að stofna sérstaka nefnd sem hefði það að markmiði að huga að þessum málum og leggja til leiðir til aukinnar víðsýni og manngæsku, bæði til að bregðast við ástandinu eins og það er en ekki síst til að fyrirbyggja að það versni.

Við höfum stefnu um málrækt, landrækt, við höfum stefnu um skógrækt og ýmiss konar rækt. Þurfum við kannski stefnu um mannrækt?


Efnisorð er vísa í ræðuna