146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

breytingar á Dyflinnarreglugerðinni.

[15:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Fram kemur á vefsvæði hæstv. dómsmálaráðherra að hún hafi sótt óformlegan fund dóms- og innanríkisráðherra í Valletta á Möltu þann 26. janúar sl. þar sem málefni tengd hælisleitendum og Schengen-ríkjasamstarfinu voru til umræðu. Í fréttatilkynningu um fundinn kemur fram, með leyfi forseta:

„Ráðherra greindi þar frá áherslum nýrrar ríkisstjórnar Íslands í hælismálum ásamt efasemdum Íslands gagnvart fyrirhuguðum breytingum á Dyflinnarreglugerðinni, þ.e. aukinni samábyrgð vegna afgreiðslu hælisumsókna og áframflutningi hælisleitenda frá þeim ríkjum Evrópu sem taka á móti flestum hælisumsóknum til ríkja sem ekki sæta sambærilegri ásókn hælisleitenda. Taldi ráðherra að slíkar breytingar fælu í sér grundvallarbreytingu á ríkjasamstarfinu. Eftir umræður var ljóst að ríkin greinir enn á um hvaða leiðir komi best til móts við aukið flæði hælisleitenda til Evrópu.“

Fréttin er ekki ítarleg en vekur upp hjá mér ákveðnar spurningar. Ísland hefur hingað til forðast að taka raunverulega sameiginlega ábyrgð með öðrum ríkjum Evrópu vegna landfræðilegrar stöðu landsins, en hún felur í sér að við erum aldrei fyrsti viðkomustaður hælisleitenda og við getum því nánast alltaf sent fólk úr landi, alla vega á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Framkvæmdin hérlendis hefur verið með því móti að við nýtum allar heimildir til þess að endursenda fólk til landa þar sem grundvallarmannréttindum þeirra er hætta búin til þess eins að þurfa ekki að taka okkar skerf. Ég vísa sérstaklega í ítrekaðar brottvísanir hælisleitenda til Ítalíu, nú síðast samkynhneigðs manns frá Íran sem er veruleg hætta búin á Ítalíu. Eins og við vitum er Ítalía meðal þeirra landa sem taka þurfa á móti flestum hælisleitendum ásamt Grikklandi, Möltu og Spáni.

Ég spyrja hæstv. ráðherra að þrennu: Hvaða breytingar eru það nákvæmlega sem ráðherra telur að feli í sér grundvallarbreytingu á ríkjasamstarfinu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar? Er ráðherra andvíg hugmyndinni um aukna samábyrgð Evrópuríkja vegna afgreiðslu hælisumsókna? Hyggst ráðherra beita sér gegn brottvísunum hælisleitenda til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, einkum þegar um er að ræða einstaklinga sem tilheyra varnarlausum hópum eins og Ámír, samkynhneigði hælisleitandinn frá Íran, er dæmi um?