146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

málefni innanlandsflugvalla.

[15:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég treysti því að hæstv. samgönguráðherra deili með mér áhyggjum af áherslum og áhersluleysi þessarar ríkisstjórnar í byggðamálum. En orð hæstv. ráðherra, m.a. um Reykjavíkurflugvöll, hafa gefið mér og fleirum tilefni til að vona að hæstv. ráðherra sé ákveðin undantekning hvað þann málaflokk varðar og áherslur í honum í þessari ríkisstjórn. Menn hafa gengið svo langt að kalla hæstv. ráðherra ráðherra vonar, ljósið í myrkrinu í byggðamálum.

Þess vegna ætla ég að spyrja hæstv. ráðherra út í afstöðu hans til, reyndar Reykjavíkurflugvallar en tveggja annarra flugvalla líka. Í fyrsta lagi: Hver er afstaða hæstv. ráðherra, nú þegar hann hefur haft tíma til að skoða málin, til framtíðarstaðsetningar Reykjavíkurflugvallar, flugvallarins alls? Þar er ég að tala um flugbrautanna þriggja. Telur hæstv. ráðherra tilefni til að enduropna þriðju flugbrautina, neyðarflugbrautina svokölluðu? Og hefur hæstv. ráðherra skoðað þá vinnu sem var unnin í tíð síðustu ríkisstjórnar við að opna fleiri fluggáttir inn í landið, sem er orðið mjög krefjandi mál núna? Það hafa miklar fréttir verið að undanförnu um hversu mikið álagið er á Keflavíkurflugvelli, hversu mörg ný flugfélög eru að hefja flug til og frá landinu. Þar af leiðandi er enn frekara tilefni en áður, bæði út frá byggðasjónarmiðum en líka út frá mikilvægi þess að nýta þá auðlind sem landið er sem best, til þess að stuðla að því að þessir tveir alþjóðaflugvellir, á Akureyri og Egilsstöðum, nýtist sem slíkir við það að fá ferðamenn inn í landið á fleiri stöðum.

Það hefur verið unnin heilmikil vinna í þessu, eins og ég er viss um að hæstv. ráðherra er meðvitaður um. En hvað hyggst ráðherrann gera til þess að fylgja þeirri vinnu eftir?