146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[14:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að hv. þingmaður hafi ekki skilið orð mín svo að ég væri að gera lítið úr þeirri lagabreytingu sem hér er lögð til. Ég taldi hins vegar í ljósi forsögunnar rétt að hafa í huga að ekki er verið að bregðast við yfirvofandi ógn með því að leggja til að þetta tiltekna ákvæði falli brott. Ég vil endilega að hér komi fram að ég styð markmið þessa frumvarps um að fella brott þetta ákvæði sem ég held að sé í besta falli arfur frá liðnum tíma.

Það sem ég vildi hins vegar vekja athygli á í þessari umræðu er að við Íslendingar stöndum frammi fyrir því verkefni, held ég, að taka málefni sem varða tjáningarfrelsið, löggjöf um það og beitingu tjáningarfrelsisins, til töluvert víðtækari umræðu en þetta tiltekna ákvæði hegningarlaganna gefur tilefni til. Ég vildi nota tækifærið til að vekja athygli á því að þegar hefur verið unnið töluvert mikið starf á þessu sviði sem liggur fyrir og varð opinbert á liðnu hausti og gefur okkur grunn til að halda áfram þeirri vinnu að gera okkar löggjöf í betra samræmi við bæði þá mannréttindasáttmála sem við eigum aðild að, þau viðhorf til mannréttinda og tjáningarfrelsis sem ríkja nú á dögum og taka mið af því um leið hvaða tæknibreytingar hafa orðið. Þetta breytir auðvitað ekki prinsippunum, grundvallarreglunum, en gerir að verkum að hugsanlega þarf að skoða málin frá öðrum og víðtækari sjónarhóli en gert hefur verið til þessa.