146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

samgöngumál í Reykjavík.

[15:24]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst af öllu vil ég nú ræða það sem kom hér fram, þ.e. að ríkisstjórnin hafi ekki hugsað sér að fullfjármagna samgönguáætlun. Það var Alþingi sem samþykkti samgönguáætlun til fjögurra ára og hún var samþykkt 12. október 2016. Það var þetta þing hér sem afgreiddi í breiðri sátt fjárlagafrumvarp fyrir yfirstandandi ár þar sem skorti 10 milljarða upp á að hægt væri að standa við samgönguáætlun sem nokkrum vikum áður var samþykkt í þinginu. Það er ekki ríkisstjórnarinnar að fullfjármagna það, það er Alþingis sem fer með fjárlagavaldið.

Skemmst er frá því að segja varðandi þessi gatnamót, og aðrar framkvæmdir sem að þessu snúa hér á höfuðborgarsvæðinu, að ekki hefur náðst samstaða við Reykjavíkurborg um að stíga skref, sem að margra mati er mjög mikilvægt, til að greiða fyrir umferðarflæði á höfuðborgarsvæðinu. Við erum hér með einhver slysamestu gatnamót landsins, þar með talið þessi umtöluðu gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar þar sem slysatíðni er há. Við erum með önnur mislæg gatnamót þarna rétt hjá, sem er Miklabraut/Reykjanesbraut. Þar er slysatíðni mjög lág, en það er af því að þau eru mislæg, hitt eru ljósastýrð gatnamót. Þrátt fyrir hugmyndir um að fara í borgarlínu og auka almenningssamgöngur, sem ég er sem ráðherra mjög hlynntur að verði skoðað ítarlega, mun það ekki leysa öll okkar vandamál í þessum efnum.

Hvort ég hef farið eitthvað fram úr mér varðandi það að þetta væri á samgönguáætlun — ég biðst þá bara velvirðingar á því ef svo er. En aðalatriðið er það að ég mun núna, á fundi sem fyrirhugaður er með yfirvöldum í borginni (Forseti hringir.) á næstu dögum, taka þetta mál upp ásamt öðrum sem hafa verið í ágreiningi við Reykjavíkurborg.