146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

byggingarkostnaður og endurskoðun laga.

74. mál
[16:47]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Þetta er mjög mikilvægt málefni sem er verið að ræða. Ég kem til að taka undir með mörgum sem hér hafa talað um að þetta þarf einhvern veginn allt í senn að haldast í hendur, gæði, fjölbreytni, neytendavernd, aðgengismál, verð og blöndun. Þetta getur kannski ekki allt farið saman í sömu íbúðinni en búa þarf þannig um hnúta að við hugsum um aðgengismál, um mismunandi íbúðir, eigum við að segja misflottar. Það er kannski eðlilegt að fólk sem er komið um eða yfir miðjan aldur geti keypt sér dýrari og betur útbúnar íbúðir meðan þeir sem eru að byrja kaupa sér einfaldari og ódýrari íbúðir. En þær íbúðir eiga náttúrlega að standast gæðakröfur og allt þess háttar. (Forseti hringir.) Ég tek undir þetta með að passa upp á að búa ekki til sérmerkt hverfi þar sem hlutir eru mismunandi.