146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega freistandi að venda núna kvæði mínu í kross og segja að þetta hafi ekki verið „strámaður“ því að hv. þingmanni hættir alltaf til að segja „það sem við segjum, það sem við segjum“ en mér heyrist hv. þm. Viktor Orri Valgarðsson sem betur fer segja hlutina ekki bara öðruvísi heldur í grunninn aðra hluti en hv. þm. Teitur Björn Einarsson gerði í flutningsræðu sinni og andsvörum eftir það. Ég held bara áfram að gera athugasemd við málflutning hv. fyrsta flutningsmanns málsins. Sama hversu mikil vikmörk eru á félagsfræðilegum rannsóknum, sama hversu miklir annmarkar eru á þeim, þá eru rannsóknir betri en bara eitthvert gisk, eitthvert rassvasabókhald vel meinandi lögfræðings sem flytur mál inn á Alþingi. Ég sem þingmaður sem er ekki sérfræðingur á sviði lýðheilsufræða og ekki heilbrigðisvísindamenntaður verð að reiða mig á upplýsingar og vil síður að aðrir þingmenn tali þær upplýsingar niður sem einhverjar bollaleggingar sem megi bara gera grín að með því að tala um eistun á mannkyninu og annan bjánaskap. Ég verð að viðurkenna það, frú forseti, ég missti andlitið þegar ég heyrði þessa vitleysu vella upp úr hv. flutningsmanni málsins hér fyrir helgi og vona að þetta sé ekki til marks um þá umræðu sem muni fylgja málinu inn í vorið. Þetta eru ekki skotgrafir, þetta er bara sandkassi.