146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:10]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega þannig að þrátt fyrir að heildarneysla áfengis sé lítil hér á landi þá eigum við í talsverðum vandræðum þegar kemur að svokallaðri lotudrykkju, þ.e. þegar fólk drekkur mikið. Þegar kemur að þeim þáttum erum við og önnur lönd sem búum við þetta fyrirkomulag með talsvert hærra hlutfall af slíku en gerist í Suður-Evrópu. Hvort beintenging er á milli veit ég ekki, en mig langar samt að koma því að því að ég upplifi stundum að ástæðurnar séu þessar.

Af því að nokkrum sinnum hefur komið hálfpartinn fram sú ásökun að við hunsum vísindi eða gerum lítið úr þeim þá langar mig að rétta það af með ákveðnum hætti.

Ég hef skoðað mikið umræðuna um afnám bjórbannsins á sínum tíma. Ég nefni það ekki hér til að núa mönnum því um nasir með einhverjum hætti, heldur var það tilefni ákveðinnar sjálfsskoðunar vegna þess að ég leitaði að umræðunni frá þeim tíma og hvaða aðilar það voru sem voru neikvæðir í garð þeirra breytinga. Það voru upp til hópa nákvæmlega sömu aðilar og leggjast gegn þessu frumvarpi. Það eru sérfræðingar á sviði lýðheilsu, menn úr heilbrigðisgeiranum o.s.frv., fólk sem hafði umhyggju barna að leiðarljósi. Hvernig hefði ég, sem er háskólagenginn maður sem ber almennt virðingu fyrir rannsóknum, getað komist að annarri niðurstöðu á þeim tíma en að hafna því frumvarpi í ljósi þeirra vísindalegu niðurstaðna og þess rökstuðnings sem þá lá fyrir?

Eina svarið sem ég hafði, vegna þess að ég tel mig nokkurn veginn vita að afstaða mín til þess frumvarps hefði verið á þann hátt að ég hefði leyft það, var að ég met önnur atriði meira. Þetta er ekki eina atriðið sem ég lít á. Ég met önnur atriði meira, eins og það sem mér finnst vera rökrétt löggjöf, og ég met sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga meira en það. Ég vil bara koma því á framfæri hér. Það er ekki þannig að ég hunsi alfarið þær niðurstöður að neyslan muni hugsanlega aukast, heldur lít ég þannig á í ljósi sögunnar að gildismat mitt sé þannig að ég líti ekki á þennan þátt á sama hátt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)