146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[11:48]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka afmælisbarni dagsins og hæstv. umhverfisráðherra fyrir nauðsynlega og ágæta skýrslu sem hér er rædd. Skýrslan dregur fram þau verðmæti sem Íslendingar búa yfir í formi vistvænna orkugjafa og hvernig okkur hefur auðnast að nýta hana, m.a. til almennrar húshitunar. Hún dregur þó einnig upp nokkuð dekkri mynd af lifnaðarháttum okkar. Þannig segir í skýrslunni að losun gróðurhúsalofttegunda á hvern Íslending sé tæplega þrefalt meðaltal íbúa á heimsvísu og tvöfalt meira en íbúa Evrópusambandslandanna. Við erum einnig aðeins yfir meðaltali OECD. Þá kemur einnig fram að losun okkar hefur aukist um 26% á síðustu 25 árum en dregist saman um 24% hjá Evrópusambandsríkjunum á sama tíma og að losunin verði 33–79% með tilliti til kolefnisbindingar, landgræðslu og skógræktar til 2030. Fá eða engin dæmi eru um slíka aukningu í öðrum þróuðum ríkjum. Við munum því að óbreyttu eiga erfitt með að standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Það verður að vera okkur hvatning til að gera miklu betur í þessum málaflokki.

Framlögð skýrsla, frumvarp um orkuskipti og fleira gefur auðvitað þá trú að ríkisstjórnin hyggist taka þetta mikilvæga verkefni alvarlega. Vissulega eru líka ákvæði í stjórnarsáttmálanum um að ekki verði gerðir frekari ívilnandi samningar, t.d. til þess að greiða fyrir uppsetningu mengandi stóriðju hér í landi. Það er reyndar sá galli á gjöf Njarðar að ekkert hefur komið fram um hvernig ríkisstjórnin hyggst fylgja því eftir. Engin mál hafa verið boðuð sem tryggja að hægt verði að formgera þá stefnu. Þó að orð einstakra ráðherra kunni að vega þungt þá eru þau ekki igildi laga eða reglugerða. Annaðhvort verður ríkisstjórnin að leggja fram slíkar breytingar á lagaumhverfinu sem styðja þessi áform eða stjórnarandstaðan verður að taka málið í sínar hendur og gera það.

Ýmsar ágætar tillögur eru tilteknar í skýrslunni sem geta hjálpað okkur í baráttunni fyrir markmiðum landsins í loftslagsmálum. Má þar nefna orkuskipti, loftslagsvænan landbúnað, kolefnisbindingu með landgræðslu og skógrækt, endurheimt votlendis o.s.frv. Þetta eru allt mjög mikilvæg viðfangsefni. En þó vekur athygli að það er varla minnst á þann þátt sem er öruggt að við gætum náð einna bestum og skjótustum árangri í um leið og við bætum vellíðan og lýðheilsu landsmanna. Hér er ég að tala um skipulag þéttbýlis, frú forseti.

Vissulega hafa verið lagðar fyrir þingið metnaðarfullar tillögur um orkuskipti eins og ég minntist á áðan. Þó að það sé stórkostlegt skref má segja að við séum þar frekar að slá á sjúkdómseinkenni en að koma í veg fyrir sjúkdóminn. Það er nefnilega ekki nóg að drífa einkabílinn áfram á vistvænum orkugjöfum, við þurfum að minnka notkun hans vegna þess að hann hvetur til ósjálfbærrar þróunar byggðar. Það er mikilvægt að móta metnaðarfullar tillögur um sjálfbæra þróun þéttbýlis og styðja þannig við þær sveitarstjórnir sem hafa látið málið til sín taka og hvetja aðrar til að fara inn á sömu braut.

Í dag er talið að mannvirkjagerð sé ábyrg fyrir um 30% af kolefnislosun í heiminum. Það er þar sem við eigum langmest færi á að minnka kolefnisútblástur og þar með heyja árangursríka baráttu í loftslagsmálum. Ekki síst í land þar sem um 70% landsmanna búa í svona þokkalega stórum bæjum eða borgum. Það er hvorki spurning um smekk né frelsi hvernig á að byggja eða skipuleggja. Gisin byggð krefst margfalt meiri innviða sem eru ekki aðeins dýrir í uppbyggingu og rekstri, heldur umfram allt umhverfissóðaskapur. Hún minnkar líka líkur á skilvirkum almenningssamgöngum, hvetur eða þvingar fram aukna bílaumferð sem aftur hvetur til útþenslu og verður þannig óbeint vítahringur og stór orsakaþáttur í súrefnisútblæstri.

Við þurfum því í fyrsta lagi að skipuleggja allt þéttbýli þannig að það taki mið af hinum þremur stoðum sjálfbærni; umhverfislegum, efnahagslegum og félagslegum þáttum. Í öðru lagi þurfum við að nútímavæða og endurhugsa infrastrúktúrinn með það fyrir augum að gera hann skilvirkari. Í þriðja lagi þurfum við að beita grænum sköttum og hvötum. Í fjórða lagi þurfum við að styrkja almenningssamgöngur, örva blandaða landnotkun og auka möguleika manna á að komast milli staða gangandi og hjólandi. Og auðvitað auka notkun vistvænna orkugjafa á kostnað jarðefniseldsneytis. Að lokum þurfum við að bæta menntun almennings sem miðar að því að gera okkur frekar að borgurum en neytendum.