146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

matvælaframleiðsla og loftslagsmál.

[14:50]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna. Mér er það sönn ánægja að vera hér til svara. Fyrst var spurt um fæðuöryggi og matvælaöryggi og hvort einhver áætlun væri í bígerð varðandi þau mál. Því er til að svara að þessir málaflokkar eru ekki eingöngu á könnu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og því kannski ekki mitt að setja fram áætlun. Þetta eru engu að síður brýn mál sem þarf að marka skýra sýn í. Við búum á eyju langt norður í hafi og við eigum að framleiða það sem við getum hérlendis á sjálfbæran hátt, til að mynda með tilliti til orku og áburðarefna, og við eigum að framleiða heilnæm og örugg matvæli, helst lífrænt vottuð. Það er gæðastimpill sem ég vildi sjá á sem flestum íslenskum matvælum.

Mig langar líka að benda á í þessu samhengi að á meðan til að mynda landbúnaðurinn reiðir sig að fullu á innflutt eldsneyti og innfluttan áburð dregur það úr getu greinarinnar til að framleiða fæðu komi upp aðstæður sem koma í veg fyrir innflutning á þessum aðföngum.

Næst var spurt um hvernig ég sæi framtíð matvælaframleiðslu á Íslandi fyrir mér. Í stuttu máli sagt sé ég innlenda matvælaframleiðslu bara eflast en hún verður engu að síður að þróast í átt til sjálfbærni og taka mið af breyttu neyslumynstri Íslendinga og valfrelsi neytenda. Það segir sig sjálft að ekkert er sjálfbært við offramleiðslu, eins og því miður er raunin með lambakjötið. Landbúnaðurinn á mikið inni þegar kemur að loftslagsvænni nýsköpun og ég hlakka til að sjá geirann taka öflugt frumkvæði í þá áttina, á sama hátt og t.d. sjávarútvegurinn hefur gert. Ég sé fyrir mér að endurskoðaðir búvörusamningar geti spilað stórt hlutverk þar inn í.

Matarsóun og aðgerðir gegn henni hafa verið mikið í umræðunni síðustu misserin og það er mjög af hinu góða. Minni sóun þýðir minni losun gróðurhúsalofttegunda og almennt minna álag á náttúruna. Umhverfisstofnun vinnur að verkefni um matarsóun sem ég tel vera mjög gott. Þar er bæði unnið gegn sóun í fyrirtækjum og stofnunum og að vitundarvakningu meðal almennings. Ég er að sjálfsögðu mjög hlynnt því að hráefni sé nýtt á sem bestan hátt og að sem minnst fari til spillis og mun áfram halda þessu málefni á lofti.

Hvað varðar kolefnisspor af flutningi matvæla verðum við að muna að það verður ekki bæði haldið og sleppt. Við getum t.d. ekki notað loftslagsástæður til að setja takmörk á innflutning matvæla á sama tíma og við viljum geta selt sjávarafurðir okkar, og reyndar landbúnaðarafurðir líka, úr landi. Gleymum því ekki að við erum einn stærsti fiskútflytjandi heims og við flytjum inn kornmeti, ávexti og margvíslega vöru sem við getum ekki aflað heima fyrir. Það er gott að efla vitund neytenda og reyna að draga úr kolefnisspori vöru á öllum stigum, en það væri óraunhæft að reyna að banna innflutning á grunni loftslagsraka.

Ég velti reyndar fyrir mér hvort það sé víst að kolefnisspor innlendra matvæla sé alltaf minna en spor innfluttra matvæla. Oftar en ekki byggir íslensk framleiðslan að talsvert miklu leyti á innfluttum aðföngum og kolefnisspor aðfanganna verður að taka með í heildarjöfnuna. Það væri því mjög jákvætt ef matvælaframleiðendur hérlendis myndu merkja vörur sínar með kolefnisspori, eins og ég heyrði að hv. þingmaður kom inn á áðan, svo að neytendur gætu borið það saman við kolefnisspor innfluttra matvæla sem ekki er síður mikilvægt að séu merkt.

Að síðustu var spurt um áhrif endurheimtar votlendis á ræktarland. Það er ljóst að endurheimt votlendis er mikilvægur þáttur í loftslagsstefnu og ég vil efla aðgerðir á því sviði. Þar vil ég vinna í sátt við bændur og aðra landeigendur. 15–20% af framræstu votlendi eru nýtt til ræktunar í dag. Talsverður hluti til viðbótar er nýttur til beitar en heildarstærð þeirra svæða liggur þó ekki fyrir. Ekki liggur fyrir nein áætlun um hvaða ónotuð framræst votlendi muni hugsanlega verða tekið til ræktunar á komandi árum né hvort fyrirhugað sé að planta þar skógi. Þetta eru allt atriði sem við verðum að skoða betur og taka mið af í aðgerðaáætlun stjórnvalda hvað varðar loftslagsmálin.

Við þurfum að kortleggja möguleikana á endurheimt mun betur áður en verður farið í aðgerðir. Það segir sig þó sjálft að ekki verður forgangsmál að ráðast í aðgerðir á landi sem er nýtt til ræktunar eða annara nytja eða er fyrirhugað að nýta til landbúnaðar. Það er nóg af framræstu landi sem er ekki í notkun og þar má forgangsraða aðgerðum.

Ég vona að ég hafi komið að því að svara sem flestum spurningum hv. þingmanns og hlakka til að heyra hvað (Forseti hringir.) aðrir þingmenn leggja til málanna.