146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:08]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru nokkur atriði í máli hv. þingmanns sem vekja athygli mína. Það fyrsta er að það virðist koma fram að hv. þingmaður lætur sér í léttu rúmi liggja að við uppfyllum ekki skuldbindingar okkar gagnvart EES-samningnum. Ég vil spyrja hv. þingmann út í það hvort ekki sé ástæða til þess að bregðast við, hvort það sé í lagi að Ísland uppfylli ekki skuldbindingar sínar gagnvart EES-samningnum.

Í öðru lagi: Hver er hinn gildandi réttur í dag? Hvaða takmarkanir eru á erlendum lánum til íslenskra neytenda í dag? Að hvaða leyti breytir þá þetta frumvarp því?

Í þriðja lagi: Hv. þingmaður vísar til þeirra sem eru efnaðir. En hver er munurinn á þessu frumvarpi með tilliti til þess að standast greiðslumat og gildir um öll önnur lán að öðru leyti hvort eð er? (Forseti hringir.) Það þurfa allir að standast greiðslumat og skiptir þá ekki máli að setja þessa hluti í samhengi?