146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

framtíðarsýn fyrir skapandi greinar.

[17:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. málshefjanda að listin þarf í sjálfu sér enga réttlætingu nema sjálfa sig og lífið væri auðvitað óbærilegt án hennar. En skapandi greinar eru þó nú orðnar meðal undirstöðuatvinnugreina þjóðarinnar. Í dag starfa 20 þúsund manns við þessa grein, svipaður fjöldi og starfar í landbúnaði og sjávarútvegi samanlagt og jafn margir og í ferðaþjónustu.

Svo ég segi það í þriðja skipti í pontu í dag mun í náinni framtíð gervigreindin og sjálfvæðingin gjörbreyta atvinnuháttum okkar og þar verður sköpunarkrafturinn og frumkvæðið meðal þeirra eftirsóttu kosta sem verður litið til. Þess vegna er lykilatriði að standa vel að listkennslu barna og unglinga ef við ætlum að efla skapandi greinar. Við sjáum það í rauninni best á þessu blómlega tónlistarlífi í landinu hvað góð löggjöf og utanumhald hefur skapað. Því miður, frú forseti, er myndlistarnám barna og unglinga ekki í jafn góðum farvegi. Mig langar aðeins að beina athyglinni að því námi.

Það er reyndar undir hælinn lagt, eins og hæstv. ráðherra sagði áðan, hvort þessari lögboðnu skyldu, myndlistarkennslu, er sinnt. Myndlistin er nefnilega ekki eingöngu merkileg í sjálfu sér heldur er hún grunnur fyrir svo margar aðrar verðmætar skapandi greinar sjónlista. Ég nefni arkitektúr, fatahönnun, grafíska hönnun, tölvuleikjagerð, ljósmyndun, kvikmyndagerð og margt fleira. Myndlistarnám er svo hagkvæmt í framkvæmd og ólíkt mörgum öðrum greinum, svo sem tónlistarkennslu, hentar hún nefnilega afar vel í hóptímum, a.m.k. þegar um grunnnám er að ræða. Hér er því um mjög skynsamlega fjárfestingu að ræða, frú forseti.

Nú hefur ráðherra möguleika á því að bregðast við sífellt auknum áhuga á sjónlistum, viðurkenna vaxandi þátt þeirra í efnahagslífi þjóðarinnar og sýna virkilega útsjónarsemi í glímunni við krefjandi framtíð.