146. löggjafarþing — 43. fundur,  13. mars 2017.

afnám fjármagnshafta, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:12]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það eru ákaflega góðar fregnir að nú sé verið að létta af gjaldeyrishöftunum að fullu. Höftin hafa nú varað í meira en átta ár, miklu lengur en gert var ráð fyrir í upphafi. Þrátt fyrir að þau hafi veitt almenningi ákveðið öryggi fyrst um sinn og að mörgu leyti reynst vel sem neyðaraðgerð í kjölfar fjármálakreppunnar þá er skaðsemi þeirra til lengri tíma öllum ljós. Undanfarið hafa flest okkar þó ekki fundið fyrir höftunum á eigin skinni. Skaði þeirra hefur engu að síður verið umtalsverður. Fórnarkostnaðurinn er mikill en var orðinn illsjáanlegur; við sáum nefnilega ekki tækifærin sem töpuðust. Við sáum ekki fyrirtækin sem ekki urðu til og við sáum ekki hagvöxtinn sem varð ekki að veruleika.

Höft grafa undan trausti umheimsins á íslensku efnahagslífi. Með því að viðhalda þeim til lengri tíma erum við að gefa til kynna að við annaðhvort getum ekki eða viljum ekki reka opið hagkerfi með frjálsum viðskiptum samkvæmt leikreglum alþjóðasamfélagsins. Höftin skaða þannig orðspor landsins og senda umheiminum skilaboð um að efnahagsstefna okkar standi ekki traustum fótum.

Aðstæðurnar nú til losunar hafta eru mjög hagfelldar og gætu vart verið betri. Efnahagshorfur eru bjartar, hagvöxtur hér á landi mældist 7,2% á síðasta ári, sem er mun meira en vöxtur í viðskiptalöndum okkar. Spár gera áfram ráð fyrir myndarlegum hagvexti á komandi árum. Þá hefur verðbólga haldist lág og stöðug og ríkisfjármálin eru í jafnvægi og skuldir heimila og fyrirtækja hafa farið hratt lækkandi. Áfram er útlit fyrir mikinn afgang af viðskiptum við útlönd. Erlend staða þjóðarbúsins hefur ekki verið betri í lýðveldissögunni og gjaldeyrisforðinn dugir til að mæta öllum erlendum skammtímaskuldum þjóðarbúsins.

Frú forseti. Við sjáum það á viðbrögðum markaðarins að hlutabréf hafa hækkað í verði og krónan hefur sigið. Það verður ábyggilega einhver hreyfing á meðan markaðurinn er að melta þessar fréttir. Þó má draga þá ályktun af orðum sérfræðinga að þessi aðgerð hægi í besta falli á styrkingu krónunnar, að sig dagsins sé til skamms tíma og kaupmáttur almennings haldi áfram að styrkjast. Það er jákvætt. Það er til góðs. Við verðum samt að vera vakandi yfir því að útflutningsgreinarnar, sérstaklega ferðaþjónusta og sjávarútvegur, eru mjög viðkvæm fyrir því að krónan styrkist svona mikið, sérstaklega þegar sumir hér inni eru á sama tíma að kalla eftir auknum álögum á þessar greinar. Slíkar aðgerðir geta orðið útflutningsgreinum mjög þungbærar.

Virðulegi forseti. Mig langar til að segja ykkur aðeins frá honum Kára. Hann verður sjö ára í þessum mánuði, en hann heyrði fyrst um hrunið um helgina. Hann spurði hvað hefði eiginlega hrunið. Húsið sem hann stæði í? Það er nefnilega svo að það mun fenna yfir þessa hluti. Því er mikilvægt að halda uppi umræðunni um mikilvægi varúðar ásamt því að gæta þess að við innleiðum fjármálalæsi sem víðast í skólakerfinu.

Frú forseti. Nú verður hægt að slökkva á skiltinu sem hefur verið blikkandi yfir landinu frá hruni „Varúð, hér eru höft“. Það hefur haft neikvæð áhrif á ímynd íslensks viðskipta- og efnahagslíf. Þetta er merkilegt tímabil í sögunni, bæði hagfræðilega og samfélagslega. Það er frábært að við sem þjóð skulum hafa staðist þetta próf sem lagt var fyrir okkur. Í þessu hefur falist mikill lærdómur. En viðbrögð okkar, þær breytingar sem hér hafa verið gerðar, t.d. á lagaumhverfi fjármálafyrirtækja, og öll sú meðvitund sem vaknað hefur um mikilvægi þess að stíga varlega til jarðar í efnahagsmálum, mun verða okkur veganesti um ókomna tíð.