146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

lífeyrissjóðir.

[16:16]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni Óla Birni Kárasyni fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu um eitt fjöreggið okkar sem eru lífeyrissjóðirnir. Okkur almennum borgurum hefur verið innrætt það um langt árabil að íslenska lífeyrissjóðakerfið sé framúrskarandi, að við séum öfundsverð í samanburði við margar þjóðir, að við eigum gilda sjóði sem nýtist okkur á efri árum.

Fyrir tveimur árum kynntu Fjármálaeftirlitið og Landssamtök lífeyrissjóða niðurstöður rannsóknar sem þá hafði nýlega verið gerð um nægjanleika lífeyris í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, OECD. Niðurstaðan var sú að íslenska lífeyriskerfið stæðist með ágætum stefnumarkandi tilmæli stofnunarinnar og stæði vel að vígi í samanburði við önnur lönd. Mikill styrkur væri í ríkulegri sjóðsöfnun, öryggisneti almannatrygginga, og að lífeyrisþegar framtíðarinnar mættu vænta þess að fá almennt meiri lífeyri en nú.

Það eru hins vegar alvarlegar blikur á lofti og af samfélagsumræðunni má ráða að tvær grímur séu farnar að renna á æ fleiri varðandi þessa meintu björtu sýn. Tryggingafræðileg staða sjóðanna í heild hefur verið neikvæð sem nemur fleiri hundruð milljörðum, halli bæði almennu og opinberu sjóðanna hefur hlaupið á tugum og jafnvel hundruðum milljarða króna. Umræðan þessi dægrin snýst ekki um betri lífeyri, hærri greiðslur heldur fremur hitt, um hækkun lífeyristökualdurs og sömuleiðis hækkun iðgjalda.

Á Íslandi eru starfandi í kringum 27 lífeyrissjóðir með miklum umsýslukostnaði. Samkeppni þeirra á milli, fækkun þeirra, aukið valfrelsi bæði innan lands og utan og virkari aðild fulltrúa sjóðfélaga að stjórnum þeirra, kann að vera hluti af endursköpun, en líkur eru á að meira þurfi til. Bent hefur verið á aukna þátttöku í samfélagslegum verkefnum í þágu sjóðfélaga sjálfra. Um er að tefla gríðarlega fjármuni, sannanlega eign launafólks. Krafan er sú að farið sé með það fé af fullkominni ábyrgð, en misbrestur hefur verið á því. (Forseti hringir.) Síst af öllu vekur það traust þegar alræmdir frjálshyggjupostular í íslenskum stjórnmálum boða lausnir til heilla fyrir almenning. Það vekur beinlínis hroll.