146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

þungunarrof og kynfrelsi kvenna.

[16:05]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Málshefjandi, hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, vekur hér verðskuldaða athygli á efni og tillögum nefndar sem hefur fjallað um heildarendurskoðun laga nr. 25/1975. Nefndin skilar vandaðri vinnu og afar vel ígrunduðum tillögum sem horfa til framfara og réttarbóta á mjög mikilvægu sviði. Sjálfsákvörðunarréttur kvenna er rauður þráður og leiðarljós í tillögunum og er það auðvitað sérstakt fagnaðarefni. Einn af þeim þáttum sem nefndin tekur til skoðunar er kynfræðsla og leggur hún til að gerð verði úttekt á kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Kynfræðsla er grundvallaratriði til að efla kynheilbrigði í víðtækri merkingu. Mikilvægt er að hafa í huga að kynheilbrigði snýst ekki bara um verklega þætti og líffræði kynlífsins. Það snýst ekki síður um samskipti, tjáningu og frjálsan vilja til að taka þátt í kynlífi eða hafna því. Af þessum sökum þarf að samþætta þessa þætti í þeirri fræðslu sem veitt er ungu fólki. Leggja þarf áherslu á aukna fræðslu um kynfræði, kynfrelsi og eðlileg samskipti þar sem samþykki er grundvallarsjónarmið. Að auki er rétt að efla kennslu í almennri kynjafræði sem fjallar um stöðu kynjanna í samfélaginu og eykur skilning á nauðsyn jafnréttis.

Kynfræðslu af þessu tagi er nauðsynlegt að yfirvöld heilbrigðis- og menntamála taki höndum saman um að móta og innleiða eins og best verður á kosið á öllum skólastigum. Ekki er nóg að útbúa gott kennsluefni og leiðbeiningar til kennara. Mikilvægt er að mennta og endurmennta kennara og aðra þá sem sinna þessu mikilvæga verkefni.