146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.

[16:59]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil gera eins og hinir og þakka fyrir umræðuna sem ég held að sé bara löngu tímabær í ljósi þess hve málaflokkurinn er gríðarlega stór og umfangsmikill, að reyna að ná utan um hann.

Ég átti ítarlega fyrirspurn til heilbrigðisráðherra á árinu 2015 þar sem ég fór yfir og spurði um árlegan stofnkostnað öldrunarstofnana vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar á næstu árum og hvernig ráðherrann sæi það fyrir sér. Þar kom fram að fjölga þyrfti hjúkrunarrýmum, bara hjúkrunarrýmum, um 1.100 fram til ársins 2025. Áætlað var að það myndi kosta á þeim tíma tæplega 29 milljarða.

Það er alveg ljóst að margt er undir. Ekki bara, eins og hér hefur verið rakið af hálfu þeirra sem hafa talað, sú fjölbreytta þjónusta sem við viljum sjá. Það breytir því ekki að þörf er fyrir mikla uppbyggingu. Í rauninni vantar, og mér fannst það koma fram í þessu, ítarlega stefnumörkun um hvernig og hvað á að gera.

Nú eru þær tillögur sem nýlega hefur verið skilað og eru til umfjöllunar margar hverjar ágætar. Allar kosta þær jú peninga. Þess vegna hlýtur að fara að koma fram hjá ráðherrum velferðarráðuneytanna beggja, því að þetta skarast og heyrir undir þá báða, að við förum að sjá einhverja stefnumörkun hérna. Eins og hér kom fram eru sveitarfélögin mörg. Málaflokkurinn er þeim þungur baggi og engan veginn ásættanlegt að þau borgi með honum á kostnað annarrar þjónustu sem þeim ber að veita um leið og við tölum í hinu orðinu um að við viljum að þjónustan sé samhæfð, viljum virkja og tryggja heimaþjónustuna, búa til teymi, þverfagleg teymi og allt það, þá gengur það ekki.

Ég vil líka taka undir að mér finnst fólk ekki hafa almennt val í dag um neinar sérstakar leiðir. Það er bara veikt og þá er ekkert annað í boði en að fara á hjúkrunarheimili, (Forseti hringir.) ef það er þá pláss, eða vera mjög veikt heima og fá einhverja lágmarksþjónustu, sem er auðvitað ekki ásættanlegt. Maður á að eiga val. Það myndi ég vilja eiga þegar ég kemst á þennan aldur.