146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Enn snúa stjórnarliðar út úr, nú hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Munurinn á ríkisstjórninni 2009–2013 og þeirri sem síðast sat var að sú fyrri skaffaði öllum sem vildu pláss í framhaldsskólum en sú síðari lækkaði peningaupphæðir og fækkaði plássum sem varð til þess að skólarnir sjálfir neyddust til að hafna þeim sem voru 25 ára og eldri. Sú stefna svínvirkaði, nemendum fækkaði strax um 40% milli ára. Nemendum var vísað í einkaskóla sem reka frumgreinadeildir og kostnaður þeirra margfaldaðist. Ríkið greiðir nefnilega sambærilega upphæð fyrir nemendur í fullu námi í einkaskólum og bóknámsnemendum í framhaldsskólum. Þetta má bara lesa úr nýrri eftirfylgniskýrslu. Þetta sparar því enga peninga en verður til þess að færri fara í nám. Fjöldatakmarkanir bitna líka harðast á íbúum landsbyggðarinnar og konum sérstaklega.

Ég spurði hæstv. menntamálaráðherra út í þessa 25 ára reglu. Hann var háll sem áll, sneri út úr og vísaði eins og hv. þingmaður í einhverja reglugerð. Þróunin talar þó sínu máli og það þarf að láta meiri peninga á málaflokkinn. Ég veit að nú er í undirbúningi þingsályktunartillaga sem vindur ofan af þessu óréttlæti, og ég trúi því að öll stjórnarandstaðan muni fylkja sér um það mál. Og nú hef ég heyrt að hv. þm. Nichole Leigh Mosty hafi lýst sömu sjónarmiðum þannig að það eru líkur á því að það sé meiri hluti fyrir þessari góðu umbreytingu hér á þinginu. Þess vegna spyr ég hv. þingmann, skólameistara og ódrepandi áhugamann um skólamál, Valgerði Gunnarsdóttur: Mun hún ekki leggja okkur lið og styðja þingsályktunartillögu sem tryggir að allir komist inn í opinberu framhaldsskólana?