146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur nú löngum reynst erfitt, þegar við höfum þanið ríkisútgjöldin út á góðæristímum, að hemja þau á nýjan leik þegar samdráttur verður. Það er yfirleitt ferli sem er mjög seinvirkt og hefur oft og tíðum reynst okkur erfitt að takast á við. Það er að því leyti ábyrgt að við setjum þessa útgjaldareglu.

Ég vil líka vekja athygli á því að samkvæmt fjármálastefnunni og þeim áætlunum sem við byggjum hana á er t.d. gert ráð fyrir lækkun vaxta og vaxtakostnaðar hins opinbera. Við höfum því í sjálfu sér fyrirsjáanleika í því að við getum aukið hér útgjöld. Útgjaldareglan ætti ekki að bíta okkur miðað við þær forsendur sem við gefum okkur fyrir þessari fjármálastefnu.