146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að hv. þingmaður hafi rétt fyrir sér en ég efast um það, nema fjárfestingarnar séu óverulegar. Hv. þingmaður talar um fjárfestingar en það er líka nauðsynlegt að stofna til varanlegra skuldbindinga fyrir ríkissjóð í þjónustu heilbrigðisstofnana, menntastofnana, það þarf að bæta kjör öryrkja o.s.frv. Telur hv. þingmaður að stefnan muni einnig rúma þær viðbætur? Hv. þingmaður talaði um að vextir myndu lækka á næstu árum og þeim fjármunum yrði betur varið til annarra hluta og nefndi þar uppbyggingu innviða. En í fjárlagastefnunni sjálfri er talað um að óvarlegt væri að nota lækkandi vaxtagjöld til varanlegra útgjalda heldur ætti að nota þau til að greiða niður skuldir. Ég spyr hv. þingmann: Er samræmi í þessu (Forseti hringir.) og er nægt svigrúm fyrir fjárfestingar, sem eru nauðsynlegar, og til þess að stofna til varanlegra skuldbindinga í velferðarkerfinu?