146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Mig langar aðeins að ræða við hana um þetta títtnefnda plagg frá fjármálaráði sem mér finnst skipta afar miklu máli og vil viðra það við þingmanninum. Hér kemur fram á bls. 15 að ítarleg útlistun á þróun útgjalda og sértækra aðgerða hins opinbera kemur ekki fram í fjármálastefnunni. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Jafnframt skiptir máli hvernig tekna er aflað. Samsetning og samspil skatta getur haft áhrif á eftirspurn í hagkerfinu og skapað mismunandi hvata. Framsetning stefnu hvað þetta varðar og sértækar aðgerðir í skattamálum væru að sama skapi til bóta fyrir gagnsæi og myndi auka festu stefnunnar og gefa vísbendingu um aðhald.“

Það er alveg sama hvar borið er niður í stóru línunum. Það er ýmist talað um að það vanti eitthvað varðandi gagnsæi eða ítarlegri upplýsingar og útlistun og annað slíkt í þessu. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hún telji að við ættum að hægja á niðurgreiðslu skulda og reyna að setja meira í innviðina eða hvort við ættum að auka tekjur til að mæta þeirri þörf sem er á innviðauppbyggingu.