146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[22:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum spurningarnar og verð að viðurkenna að ég kvíði þessu verkefni. Mér finnst ekkert þægilegt að við eigum, á harðahlaupum næstu vikurnar, að fara yfir alla þá málaflokka sem undir allsherjar- og menntamálanefnd heyra og bera það upp við þessa stefnu í einhverju óljósu verklagi sem við þurfum að finna upp í leiðinni. Þetta verður ekkert sældarlíf, held ég, í neinni nefnd. Mér finnst það áhugavert, sem þingmaðurinn nefnir, þetta með sérfræðivaldið sem er í ráðuneytinu miðað við það sérfræðileysi sem við búum við vegna þess þrönga kosts sem okkur er búinn. Þarna þykir mér hlutum snúið á haus. Ég mundi jafnvel ganga svo langt að segja að þetta gangi gegn lýðræðislegri skipan mála. Framkvæmdarvaldið situr í okkar umboði. Við sem sitjum í þessum sal höfum löggjafarvaldið og fjárveitingavaldið. Miðað við þá umræðu sem á sér stað í kringum lög um opinber fjármál þá er einhver hluti þingmanna sáttur við að framselja fjárveitingavaldið til ráðuneytanna, eins og á að vissu leyti líka við um löggjafarvaldið vegna þess að ráðuneytin búa við þennan jákvæða aðstöðumun fyrir sig, hafa miklu meira bolmagn vegna þeirra sérfræðinga sem þar starfa en við á þinginu til að takast á við mál. Þetta er ekki vandamál sem við leysum hér klukkan hálfellefu á þriðjudagskvöldi, en þetta er eitthvað sem við eigum alltaf að vera vakandi fyrir og eitthvað sem við þurfum að vinna að, þ.e. að færa fjárveitingavaldið og löggjafarvaldið, svo að ekki verði um villst, inn í þennan sal þar sem það á heima.