146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt sem ég vil koma hérna að. Það er gildandi fjármálastefna. Núverandi fjármálaáætlun sem kæmi núna gæti verið samkvæmt henni — ég skil það auðvitað að ný ríkisstjórn vilji koma fjármálastefnu sinni að þannig að ný fyrsta fjármálaáætlun hennar myndi fara eftir hennar eigin fjármálastefnu. Núna er vinnulagið einmitt dálítið nýtt, við erum að læra á þetta enn þá, við erum að læra í rauninni á það hver hefðin er á milli línanna sem við komum til með að stunda hérna. Ég lýsti því fyrir þingi í annarri ræðu minni hvernig ég teldi og hvernig ég væri að lesa á lögin um opinber fjármál, þ.e. hvernig við ættum að haga þessu. Nú á að leggja fjármálastefnuna fram í síðasta lagi meðfram fjárlögum og þarf í rauninni ekki að samþykkja hana fyrr en fyrsta fjármálaáætlun er samþykkt. Það líður þarna alveg frá kosningum að vori fram að næsta vori þegar þarf að samþykkja fyrstu fjármálastefnu nýrrar ríkisstjórnar í venjulegu árferði. Þegar gefinn er svona mikill tími þá erum við líka að gefa tækifæri (Forseti hringir.) til rosalega mikillar umræðu um þetta málefni. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður og (Forseti hringir.) fyrrverandi ráðherra sem vann að þessu máli er sammála mér í þessari greiningu á því hvernig við ættum að nálgast það að fjalla um fjármálastefnuna (Forseti hringir.) fyrst hún er komin fram og í umræðu.