146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:01]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Sú sjálfbærni hlýtur að taka mið af og máta sig við þessa hröðu tækniþróun. Við höfum alltaf þessi þrjú grundvallaratriði, nytjarnar, auðlindanytjarnar, hvernig þær falla að því, samfélagsvegferðina, hvernig hún er eða verður og svo efnahagslega þáttinn. Það er ekki hægt að greina frá því á 30 sekúndum hvernig þetta rímar saman. En þarna eru alla vega punktarnir sem við þurfum að horfa á. Ég er alveg sammála að það er mjög fyrirkvíðanlegt að horfa til fimm ára niðurnjörvunar þegar þess er gætt t.d. að verulegt hrun í ferðamennsku af einhverjum orsökum, sem greiningardeildir bankanna hafa reyndar skoðað, myndi kalla á mjög þungt áfall sem væri ekki hægt að bregðast við með neinu vegna þess að það væri ekki náttúruhamfarir. Þó að þetta væri ekki mjög þungt áfall þá værum við strax farin að horfa fram á niðurskurð, eins og hefur verið greint frá áðan í þessum (Forseti hringir.) umræðum, sem er mjög fyrirkvíðanlegt eftir átta ár af slíku.