146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:12]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, mér finnst þetta rýra þessa stefnu alveg gríðarlega mikið, raunar svo mikið að ég sé ekki hvernig á að vera hægt að samþykkja hana. Ég fæ ekki betur séð en að þeir hv. þingmenn sem koma til með að greiða henni atkvæði sitt séu að greiða atkvæði sitt, ég segi kannski ekki alveg út í loftið en það fer samt ansi nærri því vegna þess að það er svo lítið af greiningum sem liggja fyrir. Ef hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa fengið að sjá einhverjar meiri greiningar en við höfum fengið að sjá hér, þá hafa þeir þekkingu sem við hin höfum ekki. Það væri út af fyrir sig mjög alvarlegt mál.