146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu.

177. mál
[18:23]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa leiðréttingu og að fá tækifæri til að segja örfá orð um þetta, ég ætla að hafa það stutt.

Það er gríðarlega jákvætt að við séum að klára fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu og ekki síst sem beint framhald af því að fyrir viku síðan fengu íbúar Georgíu að koma inn í Schengen-lönd án vegabréfsáritunar. Ég held að það muni stuðla að auknu ferðafrelsi og að þetta aukna ferðafrelsi muni stuðla að auknum viðskiptum við EFTA-löndin. Það er hið besta mál.

Þessi samningur sem hér um ræðir er mjög góður. Hann inniheldur ekki neitt af þeim slæmu hlutum sem ég hef oft orðið var við í fríverslunarsamningum undanfarin ár. Sér í lagi er mjög gott að ekki eru svokölluð ISDS-ákvæði í samningnum.

Það er svolítið varhugavert að alltaf er verið að ganga lengra í verndun hugverkaréttar sem út af fyrir sig er hið besta mál, en ekki er sama hvernig það er gert. Mér sýnist þessi samningur fara nokkuð þægilega millibilsleið í því máli, þannig að það er bara gott og í rauninni frábært að við klárum þetta.

Ég vil samt taka undir með hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur um að mikilvægt er að við munum hvaðan Georgía kemur með tilliti til mannréttinda. Þetta er land sem er náttúrlega fyrrum Sovétríki, hefur komist mjög langa leið síðan þá, en ítrekuð mannréttindabrot eiga sér enn stað í landinu og mikil spilling er og mikið af sérhagsmunapoti. Við þurfum að passa okkur á því við framkvæmd viðskiptasamninga og fríverslunarsamninga, en líka í almennum samskiptum okkar við Georgíu, þ.e. að það sé stöðugt áréttað mikilvægi þess að viðhalda mannréttindum og að reyna að uppræta þessa spillingartilhneigingu eins mikið og hægt er.

Í rauninni hef ég ekki margt fleira um þetta mál að segja nema bara í rauninni að óska Georgíumönnum til hamingju með þennan viðskiptasamning að því gefnu að við klárum þetta hér í atkvæðagreiðslu.