146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að bregðast við sumum af þeim undarlegu ræðum sem hér hafa verið fluttar í þessari umræðu að öðru leyti en því að það er rétt að fram komi að hv. þingmenn Valgerður Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Árnason sem hér voru nefnd og einstakir þingmenn ætluðu að eiga orðastað við í umræðunni í dag eru stödd á fundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi á vegum þingsins. Þau verða hér á morgun, þannig að ekki er hægt að ásaka þau fyrir að vera fjarstödd í þessari umræðu, (Gripið fram í.) svo að það komi skýrt fram að það er skýringin á því. Ég hygg að það hafi legið fyrir að hv. þingmenn gætu verið hér til umræðu á morgun. En látum það nú vera.

Ég vildi hins vegar bregðast við því sem ég vil kalla talsverðan misskilning sem verið hefur á ferðinni í umræðu og birtist m.a. á forsíðu Fréttablaðsins í dag sem varðar hæfi þingmanna. Komið hefur fram að viðmælandi Fréttablaðsins, hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, notaði ekki orðið „vanhæfi“ í samtalinu við blaðið, enda á það ekki við. Þingmenn verða almennt ekki vanhæfir til meðferðar mála hér í þinginu nema það varði fjárveitingar til þeirra sjálfra, eins og segir í stjórnarskránni. Raunar má geta þess í tengslum við það mál sem varð tilefni að frétt Fréttablaðsins að eðli starfa lögmanna er með þeim hætti að þeir vinna í þágu skjólstæðinga sinna að tilteknum málum, en lögmenn (Forseti hringir.) samkvæmt lögmannalögum og öllum reglum sem um þá gilda, verða (Forseti hringir.) ekki samsamaðir skjólstæðingum sínum í einstökum málum, hvað þá skjólstæðingum (Forseti hringir.) sínum í einstökum málum fyrir mörgum árum.