146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

íslenskur ríkisborgararéttur.

373. mál
[14:27]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Það er almennt mín skoðun að líta ætti á ríkisborgarétt sem rétt en ekki umbun og að um veitingu hans ættu að gilda rýmri reglur en ekki þrengri. Það er með þeim gleraugum sem ég hef lesið þetta frumvarp. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það að sinni en get þó getið þess að sá lestur og sú niðurstaða leiðir til þess að hér er í flestum ef ekki öllum tilfellum, ég get sagt í öllum tilfellum sem ég hef komið auga á, vera að rýmka þann rétt sem gefinn er og fækka þeim tilfellum og vonandi útrýma þar sem einstaklingur sem hefur einhver tengsl við Ísland verður ríkisfangslaus. Ég ætla ekki að fara nánar í einstaka greinar, það er á mörgum stöðum verið að rýmka þá fresti úr 18 ára til 21 árs, verið að rýmka fresti hvað varðar ættleiðingar úr 12 ára í 18 ára, verið að rýmka þá fresti sem þeir sem hafa búið á landinu samfellt geti hlotið úr 11 ára til 13 ára. Þetta held ég að séu allt jákvæðir hlutir. Ég styð því efni frumvarpsins þótt ég áskilji mér auðvitað rétt til þess að taka afstöðu til einstakra þátta sem kunna að koma fyrir í vinnslu nefndarinnar. Ég mun þó alltaf lesa þær breytingar og líta til þeirra með þeim gleraugum að við ættum að rýmka rétt til ríkisfangs og minnka líkur á ríkisfangsleysi frekar en hitt.