146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

vátryggingasamstæður.

400. mál
[16:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir að ekki er ástæða til þess að vera í eftirliti eftirlitsins vegna heldur skiptir mjög miklu máli að Fjármálaeftirlitið sé með skilvirkt eftirlit eins og aðrar ríkisstofnanir. Ég held að þar sé mikilvægt að við tökum þátt í alþjóðlegu samstarfi, sem ég veit að Fjármálaeftirlitið gerir a.m.k. að miklu leyti en kannski ekki jafn miklu leyti og vert væri. Það truflar mig vissulega að alþjóðastofnanir geri athugasemdir við Fjármálaeftirlitið almennt. Ég held að við verðum öll saman, bæði Fjármálaeftirlitið sjálft og fjármálaráðuneytið, að svo miklu leyti sem það snýr að því, og svo Alþingi, að tryggja að gæði eftirlitsins séu þau að við getum treyst því eins og mögulegt er að Fjármálaeftirlitið geti rækt hlutverk sitt, sem er að stuðla að heiðarlegu og traustu fjármálaumhverfi. Ég mun ekki láta mitt eftir liggja í því.